Samkvæmt greinargerð Hagstofu Íslands um launamun innflytjenda og innlendra eru innflytjendur að jafnaði með tæplega 8% lægri laun. Munurinn er meiri í störfum sem innflytjendur vinna oftast t.d. er hann um 10% í störfum ræstingafólks og aðstoðarfólks í mötuneytum og 11% í störfum við handsamsetningu, en samtals eru störf í þessum greinum ríflega 18 þúsund talsins.

Útreikningarnir taka tillit til kyns, aldurs, menntunar, fjölskylduhaga, búsetu og ýmissa starftengdra þátta og en með leiðréttingu á þessum þáttum sést hvaða áhrif bakgrunnur fólks hefur á laun. Þannig er talað um skilyrtan launamun sem í barngæslu er 8%. Jafnframt benda útreikningar til þess að innflytjendur beri að jafnaði minna úr býtum fyrir menntun sína en innlendir, bæði í tilfelli einstaklinga með grunnmenntun og háskólamenntaðra.

Þegar skoðað var hvaða þættir skýra breytileg laun meðal innflytjenda, ber helst að nefna að innflytjendur fæddir á Norðurlöndunum eru að jafnaði með hærri laun en innflytjendur fæddir í öðrum löndum. Til dæmis eru innflytjendur frá Vestur-Evrópu að jafnaði með 4% lægri laun en innflytjendur frá Norðurlöndunum og innflytjendur frá Austur-Evrópu að jafnaði með 6% lægri laun. Lægstu launin, miðað við innflytjendur frá Norðurlöndunum, hafa innflytjendur frá Asíu, eða 7% að jafnaði.

Niðurstöður greiningarinnar sýndu einnig að þeir innflytjendur sem komu til Íslands fyrir 6 til 9 árum hafa að jafnaði 2% hærri laun en þeir sem hafa dvalið hér á landi 5 ár eða skemur. Þær sýna einnig að þeir sem hafa verið hér í 10 ár eða lengur eru að jafnaði með 3% hærri laun.