*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 16. ágúst 2012 16:03

Innherjar fella gengi Facebook

Gengi hlutabréfa Facebook hrundi þegar hluti innherja fékk loksins að selja hlutabréfaeign sína.

Ritstjórn
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook.

Nokkrir innherjar í bandaríska netfyrirtækinu Facebook fengu heimild í dag til að selja hlutafjáreign sína í fyrirtækinu. Í kjölfarið fóru 270 milljón hlutir í félaginu síuðust í smáskömmtun inn á markaðinn fljótlega eftir að hlutabréfamarkaðir opnuðu vestanhafs. Áhrifin urðu þau að gengi bréfa Facebook hrundi um 7% í fyrstu viðskiptum dgsins og fór gengi bréfa í félaginu niður í 19,76 dali á hlut. Það hefur aldrei verið lægra. 

Facebook var skráð á markað 18. maí síðastliðinn. Innherjar í félaginu voru þá búnir að skrifa undir samning þess efnis að þeir mættu ekki selja hlutabréf sín í félaginu fyrr en að ákveðnum tíma liðnum til að koma í veg fyrir að flóð hlutabréfa á markaðnum stuttu eftir skráningu félaga á markað. Í umfjöllun CCN-fréttastofunnar um málið kemur fram að alla jafna sé fresturinn 90 til 180 dagar, einn og hálfur mánuður og allt upp undir hálft ár. 

CNN segir frumherja Facebook hafa í öngum sínum horft upp á virði hlutafjáreignar sinnar brenna upp án þess að koma nokkrum vörnum við. Gengi hlutabréfa Facebook stóð í 38 dölum á hlut við skráningu en fór til skamms tíma yfir 40 dalina á fyrsta degi. Það hefur gert lítið annað en að lækka síðan þá og stóð í rétt rúmum 21 dal á hlut í gær. Það jafngildir 44% verðfalli frá fyrsta degi.

Eins og áður segir hrundi gengið á ný í dag þegar innherjar fyrirtækisins seldu hlutabréfaeign sína. Gengislækkunin hefur gengið til baka að örlitlu leyti frá upphafi viðskiptadagsins. Hún nemur nú 6,11%.

Fleiri bréf á leiðinni

Hlutabréfin sem innherjar Facebook seldu í dag er ekki nema brot af þeim bréfum sem þeir eiga. CNN bendir á að fleiri samningar við þá eigi eftir að renna út og megi reikna með að allt að 1,8 milljarðar hlutabréfa í félaginu verði seldir í heildina á næstu níu mánuðum. 

Stikkorð: Facebook Mark Zuckerberg