Ef Ísland myndi ganga í Evrópusambandið myndi fríverslunarsamningur Íslands og Kína falla úr gildi. Það myndi skekkja samkeppnisstöðu verslana sem selja vörur til ferðamanna að mati Ágústs Þór Eiríkssonar forstjóra Icewear.

„Íslensk verslun væri ekki betur stödd með inngöngu í Evrópusambandið. Ísland er eina vestræna landið með fríverslunarsamning við Kína, sem gerir okkur mögulegt að kaupa og framleiða vörur í Kína og flytja þær inn tollfrjálst,“ segir Ágúst í Morgunblaðinu í dag.

„Það skekkir samkeppnisstöðu okkar gagnvart erlendum verslunum ef við göngum í ESB. Innkaupsverðið myndi hækka um tæp 20 prósent við inngöngu og „tax free“ yrði ekki lengur virkt gagnvart Evrópu.

Styrking krónu lækkar verð

Ágúst segir styrkingu krónunnar geta haft áhrif á verð til ferðamanna þó fyrst og fremst séu afleiðingarnar þær að lækka verð til íslenskra neytenda.

„Með styrkingu krónunnar verður enn ódýrara fyrir okkur að kaupa vörur og láta framleiða vörur fyrir okkur utan Íslands. Það skilar sér í lægra verði fyrir bæði ferðamenn og íslenska neytendur,“ segir Ágúst en hann tekur þó fram að íslensk framleiðsla verði dýrari fyrir vikið.

„Við erum með hátt í 30 manns í vinnu hjá okkur framleiða ullarvörur. Það er helst þar sem verð gæti hækkað fyrir erlenda ferðamenn en engu að síður erum við með mjög samkeppnishæft verð.“