Heildverslunin Innnes ehf. hefur gengið frá kaupum á öllum hlutabréfum Búrs ehf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Innnes. Var það mat Samkeppniseftirlitsins að um óverulega samþjöppun væri að ræða á þeim mörkuðum sem fyrirtækin starfa á.

Búr ehf. sérhæfir sig í ávaxta- og grænmetismarkaði, innlendum sem og innfluttum vörum en íslensk framleiðsla nemur um þriðjungi af sölu fyrirtækisins.

Samkvæmt tilkynningunni er tilgangur Innnes með kaupunum á Búri að styðja við áframhaldandi vöxt á ferskvörumarkaði og að stuðla að aukinni neyslu en með samruna fyrirtækjanna verður velta Innnes rúmlega níu milljarðar. 160 starfsmenn munu starfa hjá sameinuðu fyrirtæki.