„Þetta er góð viðbót við það sem við erum með,“ segir Magnús Óli Ólafsson, forstjóri heildverslunarinnar Innnes. Hún keypti í fyrra heildverslunina Sælkerann í Kópavogi og sameinaði reksturinn um síðustu áramót. Fram kom í Lögbirtingablaðinu í gær að Innnes taki við öllum réttindum og skyldum af rekstri Sælkerans ásamt eignum og sé samrunanum lokið.

Magnús vill ekki segja hvert kaupverðið hafi verið. Með kaupum Innness á Sælkeranum hafi fyrirtækið vaxið um í kringum 6% eða svo. Með komu fimm starfsmenn sem öll vinni nú hjá Innnesi.

„Tilgangurinn með kaupunum var að fleiri hendur hér geti stækkað veltuna í Sælkeranum,“ segir Magnús og bendir á að með kaupunum sé stigið nýtt skref hjá Innnesi á sviði fiskafurða.

Sælkerinn hefur verið starfræktur frá árinu 2006. Á meðal vörumerkja hjá Sælkeranum eru sushi vörur frá Enso, tælensku vörulínuna frá deSiam, edik frá Meyer´s Madhus, olíur frá Lehnsgaard auk eigin vörulínu undir vörumerkinu Sælkerafiskur. Sælkerinn sérhæfir sig einnig í innflutningi á ýmsum tegundum af fisk og kjötvöru og má þar nefna vöruflokka eins og túnfisk, hörpuskel, parmaskinku og serrano skinku.