Frumkvöðlasetrið Innovation House opnar formlega á Eiðistorgi næstkomandi fimmtudag kl.16.00. Þar flytja erindi þau Jón Von Tetzchner, fjárfestir og stofnandi, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra og Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri Klaks Innovits. Einnig munu Anna H. Worsøe, framkvæmdastjóri Innovation House í San Francisco, og Paul O´Friel frá bandaríska sendiráðinu, vera með erindi.

Um tuttugu sprotafyrirtæki eru með aðstöðu í Innovation House. Meðal þeirra eru Spyr.is og Zalibuna sem hafa vakið mikla athygli. Mikil eftirspurn var eftir plássum í þessu nýja frumkvöðlasetri og myndaðist strax biðlisti.

Undanfarnar vikur hefur Klak Innovit staðið fyrir nýsköpunarhádegi á þriðjudögum þar sem frumkvöðlar og aðrir aðilar úr atvinnulífinu miðla reynslu sinni.