Samtök iðnaðarins segja innviðagjald Reykjavíkurborgar hugsanlega stangast á við landslög, samkvæmt áliti lögmannsstofunnar LEX, sem samtökin létu vinna fyrir um tveimur árum síðan. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef samtakanna.

Lóðarhafar gætu, samkvæmt mati LEX, krafist endurgreiðslu gjaldsins á grundvelli laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

Nánar tiltekið telur LEX að hluti innviðagjalsins sé notaður sem almennt tekjuöflunartæki, til viðbótar við þá stofna sem borginni standi nú þegar til boða, en slíkt brjóti gegn lögum. Hinsvegar geti gjaldið verið löglegt í þeim tilfellum þar sem þau séu notuð til fjármögnunar verkefna sem hvorki heyra til lögbundinna verkefna sveitarfélagsins né til verkefna sem eru þegar fjármögnuð með öðrum tekjustofnum.

Þar sem gjaldið sé innheimt í einu lagi og án nokkurrar sundurliðunar sé erfitt að leggja mat á það hvernig það skiptist í ofangreinda tvo flokka.