Leo Varadkar samgönguráðherra Írlands sagði í The Sunday Times í dag að erfitt verði fyrir Íra að sækja fjármagn á skuldabréfamörkuðum i ár og bætti svo við " 2013 gæti það verið mögulegt, en hver veit".

Varadkar sagði að þetta myndi þýða nauðsynlega framlengingu á núverandi aðstoð eða nýjan lánapakka frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Ósamstaða um niðurskurð og einkavæðingu í Grikklandi getur haft áhrif á stöðu Írlands og annarra Evrópulanda sem eru í skuldavandræðum. Eamon Gilmore aðstoðarforsætisráðherra Írlands sagði af þessu tilefni að ekki mætti setja Íra í sama flokk og Grikki.