Lögmaður Air Lease Corporation (ALC) segir koma til greina að tilkynna fyrirgreiðslur Isavia til Wow air til embættis héraðssaksóknara vegna mögulegra umboðssvika. Tugir milljóna króna tapist hvern mánuð sem vél félagsins er kyrrsett á Keflavíkurflugvelli.

„Það er nú þegar búið að skrifa undir samning um að útleigu þotunnar til nýs aðila. Tjón umbjóðanda míns af kyrrsetningunni nemur tugum milljóna á mánuði,“ segir Oddur Ástráðsson lögmaður ALC. Félagið er eigandi vélarinnar sem kyrrsett hefur verið á Keflavíkurflugvelli frá því að Wow féll.

Ákvæðið sem undir er í málinu er 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga en ákvæðið kveður á um að Samgöngustofu eða rekstraraðila flugvallar sé heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu.

„Sambærilegar heimildir eru alþekktar í flugheiminum og mælt fyrir um slíkar reglur í lögum annarra ríkja. Það breytir því ekki að íslensk lagaákvæði þurfa að standast áskilnað stjórnarskrárinnar um skýrleika,“ segir Oddur.

Oddur segir að forsendan fyrir beitingu reglu sem þessarar sé að farið hafi verið eftir reglum sem gilda um álagningu og innheimtu. Það skilyrði hafi Isavia ekki uppfyllt.

„Stjórnendur Isavia leyfðu gjöldunum að safnast upp allt frá sumarmánuðum síðasta árs og sömdu á haustmánuðum um hvernig ætti að standa að endurgreiðslu á þeim. Sú ráðstöfun fer langt út fyrir það sem úrræðið á að tryggja,“ segir Oddur.

Að sögn lögmannsins sé úrræðinu ætlað að hafa varnaðaráhrif. Ákvæðið sé öryggisventill sem ætlað sé að tryggja að ekki komi til vanskila en ekki til að tryggja greiðslu vanskila sem upp safnast án fyrirvara.

Hafa vissa samúð með Isavia

„Við höfum ákveðna samúð með Isavia og skiljum að fyrirtækið hafi ekki viljað verða þess valdandi að setja Wow á hliðina þegar rekstrarörðugleikarnir komust í hámæli. Þau sáu þarna þjóðhagslega hagsmuni og vildu leggja sitt af mörkum til að halda lífi í þessu. En það breytir því ekki að við sjáum ekki að þessi fyrirgreiðsla til Wow hafi átt sér stoð í lögum, reglugerðum og eigin reglum Isavia,“ segir Oddur.

Þá segir lögmaðurinn að til skoðunar sé hvort stjórnendur Isavia hafi farið út fyrir umboð sitt með téðri fyrirgreiðslu. Það telst umboðssvik ef maður sem hefur aðstöðu á hendi, þannig að annar maður verði bundinn af ráðstöfun hans, misnotar þá aðstöðu sína. Þá er það skilyrði að í háttseminni felist veruleg fjártjónshætta.

Einnig hefur það verið talið skilyrði að auðgunarásetningur búi að baki en dómaframkvæmd Hæstaréttar er einleit hvað þetta varðar. Má í því samhengi nefna Imon-málið svokallaða en í dómi réttarins var talið að það nægði að „sýnt [væri] fram á að háttsemin hafi valdið verulegri fjártjónshættu fyrir þann sem bundinn varð af henni“.

„Í bankahrunsmálunum hefur verið gengið út frá því að fyrirgreiðsla úr bönkunum þyrfti að vera í samræmi við lánareglur bankanna bæði að efni og formi til. Ef á það skorti, og það talið valda verulegri fjártjónshættu, þá var það heimfært undir umboðssvik,“ segir Oddur. Hann bætir því við að sem standi ætli ALC að tryggja bráðahagsmuni sína, vegna kyrrsetningar vélarinnar, með aðfararbeiðninni sem tekin verður fyrir í dag. Eftir lok þess máls verði skoðað hvort tilefni sé að tilkynna málið til embætti Héraðssaksóknara.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .