Isavia undirritaði í dag rammasamning við 12 verkfræði- og arkitektastofur um hönnun og ráðgjöf fyrir framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Áætlað verðmæti samningsins er 2-4 milljarðar króna.

Stofurnar sem um ræðir eru: Avro, Foster and Partners, KPF, Kælitækni, Lota, Mannvit, Norconsult, Optimum, Teikn, THG, Verkís og VSÓ Ráðgjöf.

Helstu hönnunarverkefni sem ráðgerð eru á samningstíma rammasamningsins eru í tilkynningu frá Isavia um málið sögð felast í hugmyndavinnu, hönnun og skýrslugerð fyrir mannvirki og kerfi á skipulagssvæði Keflavíkurflugvallar. Um sé að ræða ýmsar breytingar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar, nýbyggingar á flugvallarsvæði og endurskipulagningu eða endurhönnun á núverandi byggingum á svæðinu. Samningurinn gildi í þrjú ár með heimild til framlengingar og sé boðinn út samkvæmt reglugerð 340/2018 um samningskaup að undangenginni útboðsauglýsingu.

„Við erum virkilega ánægð með útkomu þessa útboðs og hlökkum til samstarfsins við þessa 12 verkfræði- og arkitektastofur. Það er einnig ánægjulegt að sjá að stór hluti þeirra eru starfandi hér á Íslandi sem sýnir hversu öflugur þessi geiri er orðinn. Þessar framkvæmdir eru með þeim stærstu sem lagt hefur verið í hér á landi og er uppbygging og stækkun Keflavíkurflugvallar að okkar mati afar mikilvæg til að stuðla að auknum efnahagslegum vexti hagkerfisins og samfélagsins í heild. Gangi áætlanir eftir munu byggingar í fyrsta fasa framkvæmdanna verða teknar í notkun í áföngum á árunum 2019 til 2021.“ Segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri tækni- og eignasviðs Isavia.