Iceland Seafood International lauk í dag yfirtöku á Solo Seafood ehf., eiganda spænska sölufyrirtækisins Icelandic Iberica. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til kauphallarinnar.

Félagið sagði frá því á þriðjudaginn að hluthafar félagsins hefðu veitt stjórn þess heimild til útgáfu 1.024.977.425 hluta í félaginu í tengslum við yfirtökuna, en fyrrum hluthafar Solo Seafood fá greitt með bréfunum – hvers markaðsvirði er rúmir 8,1 milljarðar króna miðað við gangvirði þeirra við lok markaða á föstudag – auk 478 þúsund evra, um 61 milljón króna. Hluthafarnir fyrrverandi hafa samþykkt að selja ekki eða yfirfæra á annan hátt 83% bréfanna næstu 12 mánuðina.

„Það er okkur sönn ánægja að tilkynna yfirtöku Icelandic Iberica Group í dag. Yfirtakan er mikilvægur liður í virðisaukastefnu okkar, sem felur í sér að samþætta virðiskeðjuna frá uppruna til endanlegs neytanda, og með þrjá stóra hluthafa á sviði íslenskra sjávarafurða, FISK, Nesfisk og Jakob Valgeir, munum við skapa tækifæri í Suður-Evrópu og á öllum þeim markaðssvæðum sem við störfum. Ég tek frábæru starfsfólki Icelandic Iberica Group fagnandi og hlakka til vaxtar starfseminnar í kjölfarið.“ er haft eftir Helga Antoni Eiríkssyni, framkvæmdastjóra Iceland Seafood International.