Iceland Seafood International (ISI) hyggst sameina tvö dótturfélögum sínum á Spáni, Iceland Seafood Spain og Icelandic Ibérica. Félagið Icelandic Ibérica varð hluti af ISI samsteypunni í september á síðasta ári í kjölfar kaupa ISI á Solo Seafood sem þá var aðaleigandi Icelandic Ibérica.

Samkvæmt tilkynningu frá ISI er markmið samrunans er að styrkja enn frekar markaðsstöðu félagsins í Suður-Evrópu, þar sem fyrirtækin eru leiðandi í léttsöltuðum og söltuðum þorski.  Samanlögð velta félaganna tveggja er um 180 milljónir evra.

Þessi tvö fyrirtæki verða stærsta einstaka eining innan ISI samsteypunnar að samruna loknum. Félögin sem eru með starfsemi víðsvegar á Spáni og á Ítalíu en þau framleiða og selja undir vinsælum og þekktum vörumerkjum í Suður-Evrópu.

Icelandic Ibérica var stofnað árið 1996 og er í dag stærsti söluaðili létt saltaðs þorsks frá Íslandi í Suður- Evrópu, sem er stærsta markaðssvæði íslenskra þorskafurða. Iceland Seafood Spain var stofnað árið 1988.

Nýju sameinuðu félagi verður stýrt af Magnúsi B. Jónssyni, núverandi forstjóra Iceland Seafood Spain en Hjörleifur Ásgeirsson, forstjóri Icelandic Ibérica, lætur af störfum eftir 23 ár í starfi.

,,Þessi breyting er rökrétt skref í þeirri framþróun sem við höfum verið í, í Suður Evrópu. Ég vil nota þetta tækifæri og óska Magnúsi B. Jónssyni til hamingju með nýtt starf en ég veit að hann mun ásamt sterku teymi á Spáni ná framúrskarandi árangri í að þróa áfram þessa nýju einingu. Ég hlakka mikið til að styðja við þetta verkefni og fylgjast með fyrirtækinu styrkjast enn frekar.

Ég vil jafnframt koma á framfæri þökkum til Hjörleifs Ásgeirssonar, framkvæmdarstjóra Icelandic Ibérica.  Hjörleifur hefur verið hjá félaginu á Spáni frá stofnun en í dag er Icelandic Ibérica stærsta fyrirtæki í sölu á létt söltum þroski í suður Evrópu. Hann hefur á þessum tíma náð á einstakan hátt að byggja upp nýjan markað á þessu svæði og hverfur nú frá sterku fyrirtæki sem er leiðandi á sínu sviði,” er haft eftir Bjarna Ármannssyni, forstjóri Iceland Seafood International í tilkynningu.