*

miðvikudagur, 16. janúar 2019
Innlent 16. apríl 2018 12:13

Ísland aðeins tekið upp 13% ESB gerða

Ísland stendur sig einna verst í innleiðingu EES gerða, en utanríkisráðuneytið leggur meðal annars til auka bolmagn sendiráðsins í Brussel.

Ritstjórn
Styrking sendiráðsins í Brussel mun án efa nýtast stjórnsýslunni og Alþingi og stuðla að bættum árangri í upptöku og innleiðingu EES-gerða, samkvæmt skýrslunni.
Aðsend mynd

Íslendingar tóku upp 9.028 EES gerðir á árunum 1994-2016 þegar samningurinn tók gildi. Á tímabilinu hefur fjöldi ESB gerða hins vegar verið 67.158 og því hafa aðeins 13,4% af gerðum ESB verið teknar upp í EES.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu utanríkisráðuneytisins, Gengið til góðs - skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins. Þar segir einnig að það hafi byrjað að síga á ógæfuhliðina í framkvæmd EES-samningsins þegar Ísland sótti um aðild að ESB. 

Ísland hefur að jafnaði staðið sig verst í að innleiða EES gerðir af EFTA ríkjunum og er með langmestan fjölda samningsbrotamála. Á undanförnum árum hefur frammistaðan þó batnað nokkuð því svokallaður innleiðingarhalli hefur lækkað úr 3,2% árið 2013 of niður í 1,8% í apríl 2018. Innleiðingarhallinn mælir fjölda þeirra gerða sem við höfum ekki innleitt á réttum tíma í hlutfalli við heildarfjölda gerða sem EFTA ríkin hafa skuldbundið sig til þess að innleiða. 

Á undanförnum árum hefur hlutfall ESB gerða sem teknar eru upp í EES samninginn aukist. Þannig hefur hlutfall ESB gerða sem teknar hafa verið upp í EES verið 22,5% á undanförnum 5 árum samanborið við 13,4% yfir allt tímabilið 1994-2016. Alþjóðamálastofnun hélt því fram árið 2014 að hlutfallið væri nær tveimur þriðju. 

Þá er í skýrslunni farið yfir úrræði til þess að draga frekar úr innleiðingarhalla Íslands á gerðum EES:

  • Auka þarf bolmagn sendiráðs Íslands í Brussel
  • Ríkisstjórn mun leggja til við Alþingi sérstakar fjárveitingar á fjárlögum til að standa straum af aukinni þátttöku íslenska ríkisins í EES-ferlinu næstu árin. Þannig verði tryggt að öll ráðuneyti eigi fulltrúa í sendiráðinu í Brussel og skrifstofa Alþingis ef fyrir því er vilji. Jafnframt verði sérstakur stuðningur við ráðuneyti til að tryggja tímanlega innleiðingu EES-gerða framlengdur
  • Ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins munu taka að sér það hlutverk að vera tilsjónarmenn með framkvæmd EES-samningsins innan stjórnsýslunnar
  • Stýrihópur um framkvæmd EES verður festur í sessi
  • Starfslýsing verður tekin saman fyrir EES-starfseiningu utanríkisráðuneytisins
  • Tryggt verður að EES-starfseiningu utanríkisráðuneytisins haldist til lengri tíma á starfsfólki með reynslu og sérþekkingu í málefnum EES
  • Opnað verður fyrir aðgang Alþingis og hagsmunaaðila að EES-gagnagrunninum sem reynst hefur mjög mikilvægt vinnutæki stjórnsýslunnar
  • Áætlun verður mótuð um almenna kynningu EES-samningsins, sem taki mið af hagsmunum Íslands af aðildinni að honum til lengri tíma litið