Niðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar á frumkvöðlastarfsemi, Global Entrepreneurship Monitor 2004 Global Report, sem kynntar voru í London í dag, sýna að Ísland er enn með hæsta hlutfall frumkvöðlastarfsemi af þeim Evrópulöndum sem taka þátt í rannsókninni. Um 13,5 prósent einstaklinga á aldrinum 18-64 ára taka þátt í frumkvöðlastarfsemi á Íslandi sem er heldur hærra en síðstu tvö ár. Hlutfallið er mjög svipað því sem gerist í Bandaríkjunum og mun hærra en á hinum Norðurlöndunum.

"Það er mikill kraftur í Íslendingum þegar kemur að því að stofna ný fyrirtæki. Aðstæður til stofnunar fyrirtækja á Íslandi eru að mörgu leyti hagstæðar, þó ekki eigi það við um allar tegundir fyrirtækja. Í augnablikinu er til dæmis ástæða til þess að hafa áhyggjur af aðstæðum til stofnunar nýsköpunarfyrirtækja sem byggja á nýrri tækni- og vísindaþekkingu." segir dr. Rögnvaldur J. Sæmundson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum.

Helstu niðurstöður GEM 2004 Global Report:

Í þátttökulöndunum er hlutfall einstaklinga (18-64 ára) sem tekur þátt í frumkvöðlastarfsemi frá 1.5% til 40%. Hæst er hlutfallið í Uganda, Peru, Ecuador og einna lægst í Japan, Belgíu, Ítalíu, Svíþjóð og Finnlandi.

Flestir (65%) stofna fyrirtæki til þess að nýta viðskiptatækifæri. Um 35% stofna fyrirtæki vegna þess að þeir hafa enga aðra möguleika á atvinnu. Hið síðarnefnda er ráðandi í löndum með lágar þjóðartekjur. Í þeim löndum er frumkvöðlastarfsemi gjarnan mikil.

Tveir þriðju þeirra einstaklinga sem stofna ný fyrirtæki eru karlar. Í öllum löndum eru karlar líklegri til þess að stofna fyrirtæki en konur.

Í löndum með háar þjóðartekjur aukast líkur á frumkvöðlatarfsemi með aukinni menntun. Í löndum með lágar þjóðartekjur gildir hið gagnstæða.

Í öllum löndum er lítill hluti þeirra sem stofna fyrirtæki atvinnulausir rétt fyrir stofnun.

Aðeins í einu af hverjum þremur nýjum fyrirtækjum er gert ráð fyrir að það skapist fleiri en tvö störf á næstu fimm árum.