Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur uppfært frammistöðumat á innleiðingu tilskipana og reglugerða á Evrópska efnahagssvæðinu. Meginniðurstaða frammistöðumatsins er sú að Noregur, ásamt einu ríki Evrópusambandsins, er með lægsta innleiðingahallan af öllum EES-ríkjunum. Framfarir hjá Liechtenstein verða til þess að ríkið er meðal þeirra tíu ríkja sem standa sig best. Ísland stendur sig aftur einna verst meðal EES-ríkjanna að því er kemur fram í frétt á vefsíðu ESA .

Frammistöðu Íslands hrakar og eru átján tilskipanir sem bíða innleiðingar. Það þýðir að innleiðingarhallinn eykst og er nú 2,2 prósent. Það er vel yfir meðaltali aðildarríkja Evrópusambandsins sem er 1,5%.

„Innleiðingarhallinn tekur aðeins til þeirra gerða sem EFTA-ríkin hafa skuldbundið sig til að innleiða á grundvelli EES-samningsins. Tilgangurinn með frammistöðumatinu er að fylgjast með því að aðildarríkin standi við þær skuldbindingar sínar og tryggi þar með fullan ávinning af EES-samningum fyrir alla hagsmunaaðila.  Tímanleg innleiðing sameiginlegra reglna er forsenda þess að hægt sé að tryggja jafnræði á innri markaðnum og öll EES ríkin eru skuldbundin til að virða tímamörk í því efni,“ segir í fréttinni.