„Ef ég væri að stofna nýsköpunarfyrirtæki í dag, þá myndi ég aldrei stofna það á Íslandi,“ segir Jónsi Stefánsson, forstjóri Greenqloud spurður um nýsköpunarumhverfið á Íslandi í dag.

Á dögunum var gengið frá sölu á íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu til Fortune 500 fyrirtækisins, NetApp. Með kaupunum mun Greenqloud starfa undir nafninu NetApp Iceland og er stefnt að því að tvöfalda starfsmannafjöldann á Íslandi fyrir lok þessa árs eins Viðskiptablaðið hefur fjallað um.

„Ég get ekki tjáð mig um kaupverðið á Greenqloud en ég get þó sagt að stærsti vinningshafinn í þessari sölu er íslenska ríkið. Við höfum greitt hátekjuskatta á Íslandi auk þess sem seljendur munu greiða fjármagnstekjuskatt af sölunni. Á sama tíma höfum við einungis fengið á bilinu 110-115 milljónir í styrki vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar sem hefur verið á bilinu 400-600 milljónir á hverju ári.

Þetta skapast af því að þak er á endurgreiðslu vegna kostnaðarins og það þarf að afnema. Sem dæmi má nefna að ef fyrirtækið hefði verið staðsett í Montréal þá hefði endurgreiðslan verið tífalt hærri.

Þá vil ég einnig benda á að þar sem nýsköpunarfyrirtæki geta ekki keppt í launum við önnur fyrirtæki hefur verið farin sú leið að bjóða starfsmönnum kauprétt. Það verður hins vegar að teljast óeðlilegt að starfsmenn sem hafa blætt fyrir fyrirtæki og tekið á sig launatap þurfi að greiða tekjuskatt þegar kauprétturinn er nýttur í stað þess að greiða fjármagnstekjuskatt eins og aðrir fjárfestar fyrirtækisins. Þessar breytingar verða að eiga sér stað á vettvangi stjórnmálanna ef Ísland á að geta verið samkeppnishæft í hinu alþjóðlega umhverfi.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .