Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood International, segir fyrirtækið leggja mikið upp úr því að færa sig nær Íslandi á nýjan leik. Iceland Seafood var skráð á First North markaðinn í Kauphöllinni síðastliðinn miðvikudag og segir Helgi að félagið sé á góðum stað.

„Við erum á mjög góðum stað í dag, við höfum einfaldað félagið og fært það aftur nær Íslandi, sem er ein ástæða þess að þetta var rétti tímapunkturinn til að skrá félagið á markað á Íslandi. Þegar ég kom að félaginu var það með mjög víð­ tæka starfsemi og margt af því sem það gerði hafði mjög lítið með Ísland að gera. Að okkar mati er mjög mikilvægt að í öllu sem við gerum sé ákveðið bakland, og Ísland er baklandið í okkar rekstri í dag, þ.e.a.s. framleiðendur á Íslandi og okkar samstarfsaðilar hér," segir Helgi.

Forskot að vera frá Íslandi

Hann leggur jafnframt áherslu á hversu mikilvægt Ísland er í markaðssetningu fyrirtækisins. Um allan heim sé landið tengt við góðar sjávarafurðir.

„Það er engin spurning og það er ein ástæðan fyrir því að við vildum færa fyrirtækið aftur nær Íslandi. Það veitir ákveðið forskot á nánast hvaða markaði sem er að vera með Ísland og Iceland Seafood á bak við sig. Menn taka eftir þér, hafa áhuga á þér og vilja tala við þig. Síðan snýst þetta auðvitað allt um að standa sig og vera nógu hugmyndaríkur, með nógu sterka vöruþróun og nógu hraðan við­ bragðstíma til að geta brugðist rétt við og boðið upp á það sem verið er að leita að,“ segir Helgi.

„Ísland er mjög sterkt land þegar kemur að sjávarafurðum, nánast hvert sem þú kemur veit fólk að Ísland framleiðir mjög góðar sjávarafurðir. Margir segja að Ísland framleiði bestu sjávarafurðir í heimi, sem ég held að sé rétt. Ég held að verkefni Íslands, og okkar fyrirtækis líka, sé að tryggja að þessi staða haldi. Þetta snýst ekki bara um að gæði vörunnar séu mikil, þetta snýst líka um að minna fólk á hversu mikil þau eru."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð