Ný skýrsla bandarísku samtakanna Freedom House sem birt var á dögunum metur Ísland sem frjálsasta land í heimi hvað varðar frelsi á veraldarvefnum. Ísland er efst á lista yfir 65 lönd, meðan Kína er í síðasta sæti.

Í skýrslu Freedom House segir að Ísland sé ekki aðeins með eitt hæsta hlutfall internetnotenda í heiminum - einhver 98% - heldur sé Ísland einnig leiðandi í umræðu um tjáningarfrelsi og netmiðlun.

Facebook er einnig sérstaklega vinsælt á Íslandi, en það er í öðru sæti yfir flesta notendur miðað við höfðatölu. 72% Íslendinga höfðu stofnað sér Facebook-aðgang árið 2013.

Freedom House snertir sérstaklega á frumvarpi Ögmundar Jónassonar árið 2013 sem snerist um að banna aðgengi að klámfengnu efni á veraldarvefnum sem og gera lista yfir ritskoðaðar vefsíður, eins konar svartbók yfir bannað efni.

Skýrslan talar því næst um að mótstaða Birgittu Jónsdóttur Pírata og tjáningarfrelsissinna hafi orðið til þess að frumvarpið yrði aldrei meira en frumvarp.

Kína neðst á lista

Kínverski kommúnistaflokkurinn ritskoðar internetnotkun almennings þar í landi, og ýmsar vestrænar síður eru lokaðar fyrir almenningi. Ritskoðun ríkisstjórnarinnar hefur landað henni allra síðasta sætinu á þessum lista yfir net- og tjáningarfrelsi.

Til að mynda er Facebook lokað á kínverska meginlandinu, en eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í vikunni gerir forstjóri samfélagsmiðilsins, Mark Zuckerberg, allt sem hann getur til að koma sér í mjúkinn hjá stjórnvöldum þarlendis.

Rétt rúmlega 3000 vefsíður eru læstar. Þekktar síður sem eru ritskoðaðar eða læstar eru til dæmis Google, Yahoo, Twitter, Instagram, Youtube, Soundcloud og Vimeo. Bandarískir og breskir miðlar á borð við New York Times, Bloomberg og The Independent eru einnig harðlæstir.

Þess ber að geta að Alþýðulýðveldið Kórea, betur þekkt í daglegu tali sem Norður-Kórea, er ekki eitt af löndunum sem metin eru á listanum.