Afkomuhorfur erlendra fjármálafyrirtækja hafa farið versnandi í kjölfar viðvarandi lágra vaxta og framhalds lækkunar markaðsvaxta. Hlutabréfaverð evrópskra banka hefur lækkað á árinu og leitt lækkun hlutabréfavísitalna. Á sama tíma hefur skuldatryggingaálag evrópskra banka hækkað umtalsvert í byrjun ársins.

Aðstæður þessara banka eru hins vegar mjög frábrugðnar þeirri stöðu sem íslenskir bankar standa frammi fyrir. Afkoma Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankans var mjög góð á síðasta ári en hana má þó rekja fyrst og fremst til einskiptisliða. Eiginfjárhlutfall bankanna er líka mjög hátt í alþjóðlegum samanburði.

Þrátt fyrir þennan aðstöðumun efast Ásgeir Jónsson, lektor í hagfræði við Háskóla Íslands, um að áhugi erlendra fjárfesta á að kaupa íslenska banka sé mikill. „Það eru nokkrar ástæður fyrir því,“ segir hann. „Það eru fyrst og fremst höftin. Ég held að menn óttist að það verði erfitt að reka banka hér með höftum og erfitt að koma hagnaði úr landi. Ég held t.d. að það sé ástæðan fyrir því að kröfuhafarnir gáfust upp á því að reyna að selja Íslandsbanka. Stjórnvöld voru búin að setja alls konar skilyrði um að ekki væri hægt að flytja hagnað úr landi sem ég held að hafi fælt fólk frá. Síðan er markaðurinn svo lítill og erfitt að eiga við hann. Ísland er í rauninni yfirbankað land hvað varðar útibú og annað fleira.“

„En það þýðir ekki að erlendir bankar hafi ekki áhuga á Íslandi. Þeir geta í raun fengið allt sem þeir vilja án þess að hafa útibú hér á landi. Þeir geta bara sent hingað menn með skjalatöskur. Eins og staðan er núna þá hafa skandinavískir bankar verið að lána töluvert af fjármagni til Íslands. Íslensk fyrirtæki gætu alveg komist í viðskipti og fengið lán erlendis og þannig var það fyrir árið 1998. Þá voru stærstu fyrirtækin á Íslandi fjármögnuð beint að utan. Mér kæmi það ekkert endilega á óvart að eftir að það fer að slaka á höftunum fari tiltölulega mikið af viðskiptum eignastýringar bankanna annað. Þ.e. til annarra fjármálastofnana í nágrannalöndunum þar sem það eru ekki höft og önnur eins afskipti.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .