Ísland hækkar um tvö sæti á frelsisás Cato hugveitunnar en hún gefur út árlega vísitölu mannlegs frelsis, þar sem einstaklings, borgaralegt og efnahagslegt frelsi landa er skoðað.

Samkvæmt nýrri skýrslu hugveitunnar, sem kennir sig við einstaklingsfrelsi, takmarkaða ríkisstjórn, frjálsa markaði og frelsi, er Ísland nú í 25 sæti yfir frjálsustu ríki heims.

Færist Ísland úr 27. sæti í það 25. milli ára, en þó landið skori hátt í einstaklingsfrelsi er efnahagslegt frelsi að halda aftur af því að landið skori hærra.

Mun hærra skor í frelsi einstaklinga en efnahagsfrelsi

Mælist landið í 9. af 159 sætum á mælikvarðanum yfir einstaklingsfrelsi, en einungis í 76. sæti af 159 sætum yfir efnahagsfrelsi. Árið 2008 var Ísland í 21. sæti, en féll niður í það 40. árið 2010, en hefur síðan smátt og smátt klifið upp stigann á ný.

Ef nánar er rýnt í tölurnar fær Ísland 7,77 stig af 10 mögulegum fyrir réttarkerfið, 9,96 stig fyrir öryggi og friðsemd, 9,43 fyrir málfrelsi upplýsingar og svo 10 af 10 stigum mögulegum fyrir ferðafrelsi, trúfrelsi, félagafrelsi og frelsi í samböndum fólks.

Hins vegar fær Ísland einungis 5,17 stig fyrir stærð ríkisvaldsins, 6,98 stig fyrir verslunarfrelsi við umheiminn, 7,03 fyrir peningakerfið, 7,79 stig fyrir regluverk og 8,32 fyrir lagakerfið og eignarréttinn.