*

föstudagur, 15. febrúar 2019
Innlent 5. apríl 2017 13:47

Ísland fái hörðustu jafnréttislög heims

BBC kallar frumvarp Þorsteins Víglundssonar um jafnlaunavottun hörðustu jafnréttislög í heimi og fyrstu sinnar tegundar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í frétt BBC um frumvarp um jafnlaunavottun sem ráðherra jafnréttismála, Þorsteinn Víglundsson, hefur lagt fyrir alþingi eru lögin sögð þau fyrstu sinnar tegundar í heiminum. Fyrirsögnin segir lögin jafnframt þau hörðustu í heiminum, en fyrirtæki geta átt von á því að borga sektir ef þau hlýða þeim ekki.

Fréttin vísar í það að Ísland hafi verið verið í fyrsta sæti á lista Heimsviðskiptaráðstefnunnar í Davos frá árinu 2015 yfir lönd með minnsta launabil kynjanna, en næst á eftir kemur Noregur, Finnland og Svíþjóð á listanum.

Lögin eru sögð banna alla mismunun, ekki bara á grundvelli kyns, heldur einnig vegna kynþáttar, trúar, fötlunar, örorku, aldur og kynhneigðar.

Gildir um fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri

„Frumvarpið tryggir að fyrirtæki og stofnanir yfir ákveðinni stærð, 25 eða fleiri starfsmenn, verði að fá vottorð um að þau uppfylli jafnlaunavottunina,“ er haft eftir Þorsteini í fréttinni.

Lögin munu taka gildi í janúar 2018 en þau njóta stuðnings bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, en í fréttinni eru þingmenn sagðir nálega til helminga konur og karlar.