Þegar nýsköpun er borin saman á alþjóðavísu kemur Ísland vel út þegar horft er til fjármuna og mannafla sem lagður er til, en afraksturinn er ekki í samræmi við það. Breyta þarf áherslum í nýsköpun hér á landi og tryggja að fjármunir og störf nýtist þar sem árangur er bestur. Þetta segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík í samtali við Morgunblaðið.

Ísland er í 36. sæti á nýjum lista Bloomberg, The Bloomberg Innovation Index, yfir þau 50 lönd heims þar sem nýsköpun er mest. Norðurlöndin Svíþjóð, Danmörk, Noregur og Finnland eru öll talsvert ofar á listanum en Ísland, t.d. er Finnland í fjórða sæti, Svíþjóð í því sjöunda, Danmörk í 11. og Noregur í 15. Reyndar er ekkert land í Vestur-Evrópu neðar en Ísland á listanum

„Það sem við sjáum í þessari úttekt Bloomberg er að Ísland stendur sig mjög vel í að setja fjármuni og mannskap í rannsóknir og nýsköpun,« segir Ari. »En það sem dregur okkur svona langt niður listann í þessari úttekt er að afraksturinn er alls ekki nógu góður og ekki í samræmi við það sem við leggjum í þetta.“