Ef önnur fjármálakreppa skellur á gæti Ísland komið betur út úr henni en önnur lönd. Ástæðan fyrir því er sú að efnahagsreikningar bankakerfisins hafa verið endurskipulagðir eftir hrunið. Bankar í öðrum löndum eru með töluvert mikið af slæmum og ofmetnum eignum í eignasafni sínu.

Þetta kemur fram í nýjasta Vegvísi Landsbankans sem hóf göngu sína á ný í dag.

Í Vegvísinum kemur auk þess fram að hlutfall útfluttrar þjónustu er nokkuð lægri hér en í mörgum öðrum löndum. Eftirspurn eftir henni hafi dregist oft meira saman en eftirspurn eftir vörum.

Á hinn bóginn segir að ljóst sé að samdráttur í heimsbúskapnum myndi hafa töluverð áhrif til lækkunar á heimsmarkaðsverð á áli og verði íslenskra sjávarafurða í erlendri mynt eins og árið 2009. Á móti kemur að heimsmarkaðsverð á innflutningi mun lækka á sama tíma og það hafa jákvæð áhrif á verðbólguþróun hér á landi.