Ísland er í þriðja sæti yfir þau lönd í heiminum þar sem er best að fara á eftirlaun, samkvæmt úttekt Natixis Global Asset Management og CoreData Research. Noregur er í fyrsta sæti og Sviss í öðru, en átta ríki í Norður Evrópu (Noregur, Sviss, Ísland, Svíþjóð, Þýskaland, Danmörk, Holland og Lúxemborg) eru í tíu efstu sætum listans. Bandaríkin eru í sautjánda sæti. Neðst á listanum eru Indland, Mexíkó og Kína.

Franska eignastýringarfyrirtækið Natixis Global Asset Management hefur á ári hverju síðastliðin fimm ár gefið út samantekt um það hvar sé öruggast að fara á eftirlaun. Fyrirtækið byggir mat sitt á svokallaðri eftirlaunavísitölu, sem tekur mið af 18 undirvísitölum á sviðum heilbrigðismála, fjármála við starfslok, lífsgæði og efnislegrar velferðar. Sem dæmi um undirvísitölur má nefna verðbólgu, vexti, skattbyrði, atvinnuleysi, tekjuójöfnuð, hamingju, lífslíkur og útgjöld til heilbrigðismála.

Ísland var einnig í þriðja sæti á lista Natixis árið 2016, en heildareinkunn Íslands hækkar þó milli ára úr 80% í 82%. Mestur var batinn milli ára í efnislegri vellferð (e. material wellbeing) og fjármálum við starfslok (e. finances in retirement). Ástæðan fyrir því er einkum mikil lækkun í hlutfalli vanskila- og vandræðalána í bankakerfinu, lægri verðbólga, lækkun í skuldum hins opinbera, mikils tekjujafnaðar, hækkunar í tekjum á mann og lægra atvinnuleysis.

Samkvæmt úttekt Natixis standa lífeyriskerfi á heimsvísu frammi fyrir öldrunarvanda. „Það er fleira fólk að lifa lengur og það eru ekki nógu margir til staðar til að standa við bakið á þeim eins og kerfið er í dag,“ segir í úttektinni. Samhliða því sé hagvöxtur á heimsvísu lítill, vextir lágir og víða talsverð hætta á verðbólgu.