Samkvæmt skýrslu undirstofnunar Sameinuðu þjóðanna telst Ísland nú vera með öflugustu fjarskiptainnviði í Evrópu og þá næstbestu á heimsvísu á eftir Suður Kóreu. Á sama tíma og Ísland fer uppfyrir Danmörku batna innviðir næstum allra landa.

„Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu sérhæfðrar stofnunar Sameinuðu þjóðanna í upplýsinga- og fjarskiptatækni, ICT um framþróun fjarskiptavísitölunnar,“ að því er framkemur í fréttatilkynningu frá Símanum um málið.

Styttri skólaganga hluti mælikvarðans

„Ísland hefur nú sætaskipti við Danmörku á þessum alþjóðlega lista. Bæði Svíþjóð og Noregur ná líka á topp tíu. Annað árið í röð trónir Suður-Kórea á toppnum. Níger vermir botnsætið en 175 lönd eru á listanum.“

Styttri skólaganga er einn þeirra liða sem heldur aftur af árangri Íslands samkvæmt mælikvarða stofnunarinnar. Samdráttur í þjónustu við heimasíma í Danmörku fellir landið niður um sæti að því er fram kemur í máli Þór Jes Þórissonar, forstöðumanns tækniþróunar hjá Símanum.

Hæsta hlutfall tölvueignar í heiminum

„Helsta ástæðan fyrir góðu gengi Íslands er eitt hæsta hlutfall tölvueignar og aðgangs að interneti í heiminum. Einnig mjög gott fjarskiptakerfi og hagstætt verð, sem eykur notkun almennings,“ segir Þór Jes.

„Fleiri þættir eru einnig mjög sterkir eins og talsími, farsími, aðgangur um fastlínukerfi og bandbreidd hvers íbúa til útlanda. Sá liður sem hækkaði mest var internettenging um farsímakerfi.

Liðir sem hamla því að Ísland komist í efsta sæti eru meðal annars styttri skólaganga almennt en gengur og gerist í löndunum í kring og einnig að hlutfallslega færri eru í háskóla en í þeim löndum sem skora hæst, en allt eru þetta liðir í fjarskiptavísitölunni.

Heimasíminn fellir Dani

Heimasíminn fellir Dani úr öðru sætinu. Þar hefur orðið mun meiri samdráttur í þjónustunni en við þekkjum hér.“Í fréttatilkynningunni segir að minnst sé sérstaklega á Símann vegna örrar uppbyggingar á 4G þjónustu.

„En Síminn tilkynnti í maí að kerfið næði 91% landsmanna eftir rúma tveggja ára uppbyggingu. Einnig er uppfærsla senda í 150 Mb/s hraða hjá Símanum nefnd meðal ástæðna árangursins. Vert er að nefna að dekkunin er 95,5% um þessar mundir,“ segir í tilkynningunni.

„Fjarskiptavísitalan er mæld út frá ellefu ólíkum þáttum, þar á meðal fjölda neytenda með heimasíma, farsíma, bandvídd úr landi og fjölda heimila með netið, notkun á því og menntun landans.

Samkvæmt skýrslunni batna innviðir næstum allra landa, en mikill munur er á þeim best og verst settu.“

Sætaröðin og vísitalan

  • 1.          Suður-Kórea    8,84
  • 2.          Ísland                8,83
  • 3.          Danmörk          8,74
  • 4.          Sviss                  8,68
  • 5.          Bretland           8,57
  • 6.          Hong Kong       8,46
  • 7.          Svíþjóð            8,45
  • 8.          Holland             8,42
  • 9.          Noregur            8,37
  • 10.        Japan                8,36
    ....
  • 11.        170. Kongó      1,50
  • 12.        171. Búrúndí   1,42
  • 13.        172. Suður-Súdan       1,42
  • 14.        173. Gínea-Bissá          1,38
  • 15.        174. ChadTsjad            1,09
  • 16.        175. Níger        1,07