Af þeim tólf ríkjum sem eru aðilar að OSPAR-samningnum – um verndun Norðaustur-Atlantshafsins – hefur Ísland lítið sinnt friðun hafsvæða samanborið við önnur ríki sem þar eiga hlut að máli. Að meðaltali hafa hin ríkin friðað sex prósent af sínu hafsvæði en Ísland aðeins sem nemur 0,1 prósenti.

Þetta kom fram í umræðum á Alþingi nýverið við fyrirspurn Ara Trausta Guðmundssonar, þingmanns Vinstri grænna, um friðun hafsvæða.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, var til svara. Hann sagðist vera mjög jákvæður fyrir hugmyndum um að skoða betur friðun hafsvæða við Ísland.

0,1%

Kom fram í máli hans að Íslendingar taka þátt í svæðisbundnu samstarfi um verndarsvæði á vettvangi Norðurskautsráðsins, en einkum þó á vettvangi OSPAR-samningsins um vernd Norðaustur-Atlantshafsins. Ísland hefur tilkynnt 14 vernduð hafsvæði inn í gagnagrunn OSPAR, sem þekja samtals innan við 0,1% af lögsögu Íslands. Ekkert hinna 12 strandríkja OSPAR hefur friðað minna en meðaltalið innan lögsöguríkja er rúmlega 6%, eða sextíu falt stærra hafsvæði en Ísland.

„Ef við skoðum hlutfall friðaðra hafsvæða hér við land er það mjög lágt í alþjóðlegum samanburði. Ég tel rétt kannski í fyrsta lagi að skoða hvers vegna svo sé og hvort ekki sé ástæða til að gefa því betur gaum að friða fleiri og stærri svæði í hafi. Í því samhengi þurfa auðvitað skýr verndarmarkmið að liggja fyrir og mat á því hvort þeim markmiðum verði náð með verndun tiltekins svæðis,“ sagði ráðherra.

Þegar vikið var að því hver tilgangur friðunar hafsvæða væri þá kom fram að hann getur verið margþættur. Sum ríki beita friðunum til að stjórna fiskveiðum og slík svæðisfriðun er sums staðar notuð til að styðja eða koma í staðinn fyrir fiskveiðistjórn með öðrum aðferðum, svo sem aflamarki eða sóknarmarki. Friðun hafsvæða getur einnig stuðlað að vernd lífríkis og náttúrufyrirbæra, og nefndi Guðmundur Ingi hverastrýturnar í Eyjafirði sem dæmi, og ýmiss hafsvæði umhverfis náttúruverndarsvæði, svo sem Surtsey og Eldey, og grunnsævi Skerjafjarðar.

Breiðafjörður nefndur

Ráðherra nefndi einnig Breiðafjörð sem ágætis dæmi friðun til að stuðla að vernd lífríkis og náttúrufyrirbæra. Nú þegar hefur Breiðafjarðarnefnd óskað eftir endurskoðun laga um vernd Breiðafjarðar í þessum tilgangi.

„Ein leið til þess væri stofnun þjóðgarðs á Breiðafirði. Ljóst er að slíkt verkefni myndi kalla á víðtækt samráð og krefjast samtals við marga hagaðila,“ sagði ráðherra.

Tölfræði Íslands

Íslendingar eru aðilar að alþjóðlegum samningum sem kveða á um verndarsvæði í hafi. Þar má m.a. nefna töluleg markmið um umfang verndarsvæða. Á vettvangi samningsins um líffræðilega fjölbreytni voru sett markmið árið 2010 um að 17% landsvæða og um 10% hafsvæða nytu verndar árið 2020.

„Þetta þýðir vitanlega ekki að hvert svæði eða hvert ríki eigi að ná slíkri tölu, en þó er áhugavert að skoða tölfræði Íslands í þessu ljósi. Yfir 20% lands á Íslandi njóta verndar samkvæmt alþjóðlegum viðmiðunum, en langt undir 1% hafsvæða innan lögsögu. Auðvitað á ekki að friða svæði til að ná ákveðnu prósentumarkmiði, en þetta vekur engu að síður upp spurningar um hvort við höfum gefið hafinu og hafsbotninum nægan gaum í umræðu um náttúruvernd og er það reyndar skoðun mín að svo sé ekki,“ sagði ráðherra og bætti við að friðun þýddi ekki bann við fiskveiðum, eins og kannski virðist við fyrstu sýn.

„Sömu lögmál gilda um verndarsvæði í hafi og á landi. Vernd landsvæða getur verið margs konar og missterk. Íslensk lög tryggja að yfirvöld sjávarútvegsmála hafa mikið vægi í ákvörðunum um vernd hafsvæða, hvort sem þær eru teknar á grunni um fiskveiðistjórn eða náttúruvernd, og ég tel að vernd og sjálfbær nýting geti vel farið saman í þessu eins og svo mörgu öðru,“ sagði Guðmundur Ingi.

Hreyfing á málið

Ari Trausti nefndi í umræðum hvort ekki væri tímabært að koma málum á hreyfingu; að til dæmis verði settur á stofn verkefnahópur „sem fer að hyggja að þeirri friðun sem okkur ber eiginlega að stuðla að í allra nánustu framtíð?“

Ráðherra svaraði því til að vinna hafi verið í gangi á vegum þriggja ráðuneyta í nokkuð langan tíma við að fara yfir stefnu Íslands varðandi verndarsvæði í hafi. Við því starfi hafi hann ýtt, eins og hann orðaði það, fyrir nokkrum mánuðum.

„Ég hef rætt við ráðherra sjávarútvegsmála um þessa vinnu og lýsti yfir þeirri von minni að við getum skýrt þessa stefnu betur, bæði innan lands og einnig út á við. [...] Ég mun beita mér fyrir því í samráði við aðra að hún verði skerpt og við fáum einhvern sýnilegan áfanga í þeim efnum sem fyrst, vonandi bara á þessu ári, t.d. út frá því að klára þá vinnu sem sett var í gang fyrir nokkrum árum og taka síðan stöðuna þegar því sleppir,“ sagði ráðherra.