Ísland er í sjöunda sæti á lista yfir bestu lönd fyrir kvenfrumkvöðla árið 2015. Þetta kemur fram í rannsókn The Global Entrepreneurship and Development Institute sem kynnt var á ráðstefnunni WE 2015 í Hörpu á fimmtudag.

Samkvæmt stuðlinum um frumkvöðlastarfsemi kvenna er best að vera frumkvöðull í Bandaríkjunum. Stuðullinn sem nú var kynntur í þriðja sinn er sagður vera heimsins umfangsmesta greiningartól sem mælir möguleika frumkvöðlastarfskvenna með því að greina frumkvöðlaumhverfi, viðskiptaumhverfi og væntingar einstaklinga í 77 löndum.

Af 77 löndum á listanum eru 47 ennþá með undir 50 stig af 100 mögulegum á stuðlinum sem gefur til kynna að þau lönd þurfi að taka verulegum breytingum til að draga úr hindrunum fyrir kvenfrumkvöðla.

97% með karlforstjóra

Halla Tómasdóttir, ráðstefnustjóri WE 2015, segir það ánægjulegt fyrir Ísland að vera á topp 10 listanum ásamt hinum Norðurlöndunum.

„Það er þó alveg ljóst að við getum ennþá gert miklu betur. Frumkvöðlastarfsemi er mikilvægt efnahagslegt sóknarfæri sem hefur verið sett á oddinn til að vega upp á móti atvinnuleysi og stöðnun í hagkerfinu. Staðreyndin er að 97% af áhættufjármagni fara til fyrirtækja þar sem er karlforstjóri og því nokkuð ljóst að við eigum verulegt tækifæri inni með því að horfa meira til þess að skapa aðstæður þar sem frumkvöðlastarfsemi kvenna getur líka blómstrað og aukið við hagvöxt hjá okkur sem annars staðar,“ sagði Halla við Viðskiptablaðið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .