Samkvæmt nýjasta frammistöðumati Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) hefur Ísland innleitt minnsta hlutfall tilskipana sem landið hefur skuldbundið sig til að innleiða af öllum EES þjóðunum.

Noregur hefur innleitt allar tilskipanir

Er svokallaður innleiðingarhalli Íslands 1,8%, en 1,2% í Liechtenstein en enginn í Noregi sem stendur sig best í að innleiða tilskipanir á grundvelli EES samningsins af EFTA ríkjunum.

22 reglugerðir voru ekki innleiddar á réttum tíma í maí 2015 en í nóvember voru þær 34. Einnig biðu sjö mál gegn Íslandi afgreiðslu EFTA-dómstólsins í desember 2015 sem er fjölgun um 4 frá því í maí á sama ári þegar þau voru 3.

Hlutfall óinnleiddra tilskipana

Sýnir frammistöðumatið hlutfall tilskipana sem hafa verið teknar upp í EES-samninginn sem ekki hafa verið innleiddar eða ESA hefur ekki verið tilkynnt um innleiðingu á innan tilskilinna tímamarka, og er það hlutfall þá þessi fyrrnefndi innleiðingarhalli.

Frammistöðumatið er birt á hálfsársfresti, en þegar matið var birt í október síðastliðnum var innleiðingarhalli Íslands 2,1%.

Stefnt að koma honum undir 1%

Segir í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins að „Undanfarin misseri hefur Ísland stöðugt verið að bæta þessa hlið á framkvæmd EES-samningsins. Í nóvember 2014 var hallinn 2,8% og 3,1% í apríl 2014. Þó er ljóst að það þarf að gera betur því miðað er við að innleiðingarhalli hjá ríkjum á evrópska efnahagssvæðinu (EES) sé ekki umfram 1%.“

Segir þar að áfram verði unnið að því markmiði stjórnvalda að innleiðingarhallinn fari niður fyrir 1%.

Réttindi sjúklinga í Evrópu

Meðal óinnleiddra tilskipana eru tilskipun um nýjar ráðstafanir og aukið eftirlit með framleiðendum lyfja til að sporna gegn viðskiptum með fölsuð lyf og tilskipun um réttindi sjúklinga til heilbrigðisþjónustu þvert á landamæri.

Með þeirri síðarnefndu verður íslenskum sjúklingum gert auðveldara fyrir að nýta sér heilbrigðisþjónustu innan EES svæðisins og fá kostnaðinn af þjónustunni endurgreiddan frá íslenska ríkinu.