*

mánudagur, 25. mars 2019
Innlent 8. nóvember 2018 09:30

Ísland var með mesta losun CO2 á einstakling

Ísland var með mesta losun koltvísýrings (CO2) frá hagkerfi á einstakling innan ESB og EFTA svæðisins árið 2016.

Ritstjórn
Hagstofa Íslands

Ísland var með mesta losun koltvísýrings (CO2) frá hagkerfi á einstakling innan ESB og EFTA svæðisins árið 2016. Ísland hefur verið í þriðja til fjórða sæti frá árinu 2008 en losun hefur aukist vegna aukins flugreksturs og skipaflutninga frá árinu 2012.

Önnur lönd sem hafa verið með háa losun koltvísýrings á einstakling eru Lúxemborg, Danmörk og Eistland og hefur losun hjá þessum löndum verið á bilinu 13 til 19 tonn af koltvísýringi á einstakling. Almennt hefur losun á einstakling lækkað innan ESB og eru flest lönd komin niður í um 9 tonn á einstakling, en hjá einstaka löndum er gildið lægra.

Í löndum ofarlega á listanum eru geirar innan hagkerfisins sem eru með afgerandi mesta losun samanborið við aðra geira. Í Lúxemborg er losun að stærstum hluta vegna reksturs flugfélaga, bæði farþegaflutnings og fraktflutnings. Sjóflutningur er afgerandi stærsta grein danska hagkerfisins í losun á einstakling, enda er stærsta skipafélag heims skráð þar. Eingöngu um 15% orkuframleiðslu Eistlands kemur frá endurnýjanlegum auðlindum og því er þessi geiri með afgerandi hlutfall losunar þar. Eistar mæta hins vegar um 93% af eigin orkuþörf með innlendri framleiðslu sem er hæsta hlutfall innan ESB. Á Íslandi er losun að stærstum hluta frá tveimur geirum; frá flugi og framleiðslu málma. Losun frá málmframleiðslu kemur ekki til vegna bruna á eldsneyti, heldur notkunar kola í rafskautum.