Birgir Bieltvedt hefur verið umfangsmikill í fjárfestingum sínum allt frá árinu 2004, jafnt hér á landi sem erlendis, og velta félög þau sem hann er leiðandi fjárfestir í yfir 10 milljörðum króna og hjá þeim starfa yfir 1.000 manns. Í heildina reka félögin tæplega 50 veitingastaði og áætlað er að 25 nýir veitingastaðir opni á árinu, þar af 10 á Íslandi. Fjárfestingasaga Birgis spannar áhugaverða tíma í íslensku viðskiptalífi og sögu, allt frá þenslutímum til kreppuára.

Rauði þráðurinn í viðskiptasögu Birgis er veitingakeðjan Domino´s sem hann kom að því að flytja til landsins árið 1993 en fjárfesti svo sjálfur í rúmum tíu árum seinna. Hann sagði þó fljótlega skilið við þá fjárfestingu þar sem önnur umfangsmikil verkefni erlendis kölluðu, þar á meðal víðfræg fjárfesting hans og Baugs Group í Magasin du Nord í Danmörku. Á árunum eftir efnahagskreppuna fjárfesti Birgir þó aftur í Domino´s á Íslandi, með það fyrir augum að færa starfsemi keðjunnar til Skandinavíu og er það verkefni nú vel á veg komið. Í dag er Birgir auk þess með fjölmörg járn í eldinum sem tengjast meðal annars fjárfestingum í íslenskum veitingastöðum og útrás Gló á komandi misserum.

Hafði alltaf mikinn áhuga á sköpun

Að sögn Birgis er hann uppalinn í kringum viðskipti en faðir hans rak m.a. raftækjaverslunina NESCO á Laugavegi 10, þar sem Joe & the Juice opnaði nýverið veitingastað og skrifstofur. Hann segist þó sjálfur ávallt hafa haft mikinn áhuga á hvers konar sköpun og ákvað hann því að fara í framhaldsnám í hönnunarskólanum Parsons School of Design, í New York, þar sem hann nam markaðsfræði og ýmiskonar hönnun.

„Stuttu eftir að ég kláraði námið árið 1992, bauðst mér starf hér á Íslandi sem fól í sér að finna viðskiptatækifæri erlendis sem hægt væri að færa til Íslands og þaðan áfram til Skandinavíu. Hugmyndin var að nota Ísland sem eins konar tilraunamarkað og var áhersla lögð á veitingageirann. Ég hafði enga reynslu af slíku en hafði þó búið í Bandaríkjunum og upplifað og prófað ýmislegt og hafði skoðanir á hlutunum. Eftir eitt ár var að endingu tekin sú ákvörðun að velja Domino´s. Aðaláherslan var í sjálfu sér ekki lögð á íslenska markaðinn þó við trúðum því auðvitað að félaginu myndi ganga vel, heldur var aðalhugsunin að starfsemin myndi henta Skandinavíu í framtíðinni. Við opnuðum fyrsta Domino´s staðinn hér heima árið 1993 og gerðum samning við Domino´s í Bandaríkjunum um opnun þriggja staða á Íslandi. Það var það sem við töldum raunhæfa vaxtarmöguleika á þeim tíma en auk þess fengum við leyfi til að opna í einu Skandinavíu-landanna innan ákveðins tímaramma. Þegar við opnuðum hér heima slógum við að sjálfsögðu heimsmet í sölu á pitsum og var það upphafið að mínum kynnum af veitingabransanum og skyndibitafæðinu, þar sem ég sit ennþá pikkfastur.“

Viðtalið við Birgi má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.