Fréttablaðið greinir frá því í dag að Glitnir hafi afhent allt stöðugleikaframlag slitabúsins til ríkisins. Hefur blaðið þetta eftir Ingólfi Haukssyni, framkvæmdastjóra Glitnis.

Því er Íslandsbanki nú að fullu kominn í ríkiseigu og eru þar með tveir af þremur stærstu bönkum landsins undir stjórn ríkisins. Í grein Fréttablaðsins kemur fram að stjórnvöld meta 95 prósenta eignarhlutinn í Íslandbanka sem Glitnir afhendi á 185 milljarða króna og er hann því stór hluti af heildar stöðugleikaframlaginu upp á 229 milljarða króna.

Seðlabankinn mun taka við eignarhlutum sem slitabúin greiða ríkinu samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins. Er mögulegt að sérstakt eignaumsýslufélag verði stofnað um stöðugleikaframlögin sem Seðlabankinn hefur yfirráð yfir.

Auk Íslandsbanka fékk ríkið afhendar eignir á borð við hluti í Sjóvá, Reitum og lítinn hlut í Eimskip.