Hagnaður Íslandsbanka á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017 var 3,5 milljarðar króna sem er sambærilegt við fyrsta ársfjórðung síðasta árs að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá bankanum. Eftir skatta nam hagnaðurinn 3,0 milljörðum meðan hann var 3,5 milljarðar króna á sama tíma fyrir ári, en arðsemi eigin fjár nam 7,0% meðan það var 6,9% á sama tímabili í fyrra.

Hreinar vaxtatekjur bankans lækkuðu um 2,0% á milli ára og námu þær 3,3 milljörðum króna, en vaxtamunurinn var sá sami á báðum árum, eða 2,9%. Hreinar þóknanatekjur jukust hins vegar, fóru úr 3,1 milljarði í fyrra í 3,3 milljarða í ár, sem er 4% hækkun á milli ára.

Meiri stjórnunarkostnaður

Stjórnunarkostnaðurinn hækkaði um 1,5% frá sama tíma fyrir ári, og var hann 6,4 milljarðar á síðasta ársfjórðungi. Kostnaðarhlutfall bankans var 60,1%, en við útreikning þess voru bankaskattur og einskiptiskostnaður undanskilinn.

Heildareignir bankans námu 1.029 milljörðum króna í lok tímabilsins, en í lok árs 2016 námu þær 1.048 milljörðum. Um 96% af eignum bankans voru í útlánum til viðskiptavina og lausafjársafn bankans.

Á tímabilinu jukust útlán til bankans um 2,3% eða 15,7 milljarða króna og fóru þau í 703 milljarða, en ný útlán á fjórðungnum voru að andvirði 46 milljarða króna.

Gæði eignasafnsins eykst

Hlutfall lána með vanskil umfram 90 daga eða með virðisrýrnun lækkaði úr 1,8% niður í 1,6% á tímabilinu, en á sama tíma lækkuðu innlán frá viðskiptavinum um 4,5% eða 27 milljarða frá árslokum 2016. Lausafjárhlutfall bankans var 181% sem er lækkun frá desembermánuði þegar það var 187%, og lækkaði einnig fjármögnunarhlutfallið á milli ára úr 123% í 121%. Vogunarhlutfallið lækkaði einnig á tímabilinu, úr 16% í 15,5%.

Íslandsbanki nefnir einnig að hann sé eini bankinn hérlendis með lánshæfismat frá tveimur alþjóðlegum lánshæfismatsfyrirtækjum í fréttatilkynningu sinni. Hækkaði Fitch mat sitt í janúar síðastliðnum í BBB/F3 með stöðugum horfum og í október á síðasta ári hækkaði S&P mat sitt í BBB/A-2 með jákvæðum horfum.

Greiða 10 milljarða í arð

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka segir grunnrekstur bankans áfram vera stöðugan. „Samþykkt var á aðalfundi bankans í mars að greiða út 10 milljarða króna af hagnaði ársins 2016 í arð til hluthafa,“ segir Birna.

„Afnám fjármagnshafta sem tilkynnt var um í mars var stórt skref fyrir íslenskt efnahagslíf. Lánshæfismatseinkunnir ríkissjóðs Íslands hækkuðu í kjölfarið og eins lánshæfismatseinkunnir Íslandsbanka sem standa nú í BBB frá bæði Standard & Poor's og Fitch Ratings.

Það er ánægjulegt að sjá rekstur og starfsemi bankans færast í eðlilegra horf. Ný útlán voru 46 ma. kr. á fjórðungnum og dreifðust vel á milli viðskiptavinahópa bankans. Þóknanatekjur hækka um 4% á milli ára, fyrirtækjaráðgjöf bankans hefur lokið stórum verkefnum undanfarið hér heima og erlendis.

Við merkjum einnig aukningu á áhuga innlendra og erlendra aðila á áhættuvörnum tengdum vöxtum og gjaldeyri. Einstaklingar og fyrirtæki mega nú fjárfesta í erlendum verðbréfum án takmarkana. Hjá VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, er hægt að kaupa í sjóðum sem fjárfesta eingöngu á erlendum mörkuðum.

Í netbanka geta viðskiptavinir bankans nú einnig keypt gjaldeyri fyrir íslenskar krónur og framkvæmt erlendar greiðslur. Í apríl voru útibúin á Kirkjusandi og Suðurlandsbraut sameinuð undir heitinu Laugardalur sem er í dag stærsta fyrirtækja- og einstaklings útibú Íslandsbanka. Eftir þessa breytingu starfrækir Íslandsbanki 14 útibú og telst áfram vera með hagkvæmasta útibúanetið á Íslandi.

Samhliða heldur stafræn vegferð bankans áfram og ánægja viðskiptavina eykst, en viðskiptavinir Íslandsbanka eru ánægðastir samkvæmt niðurstöðu Íslensku ánægjuvogarinnar og fjórða árið í röð er bankinn efstur á bankamarkaði."