Íslandsbanki hagnaðist um 13 milljarða króna eftir skatta á fyrri árshelmingi ársins. Bankinn hagnaðist um 10,8 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Bætt afkoma skýrist af stórum hluta af sterkum grunntekjum og einskiptishagnaði vegna sölu Borgunar á hlutabréfum í Visa Europe.

Arðsemi eigin fjár hefur einnig batnað milli ára og nemur hlutfallið nú 12,9%, samanborið við 11,7% í fyrra. Hagnaður af reglulegri starfsemi hefur lækkað milli ára, og lækkaði hann úr 8,2 milljörðum í 8 milljarða.

Hreinar vaxtatekjur Íslandsbanka hafa aukist um 17,3% milli ára. Á fyrsta helming ársins 2015 námu vaxtatekjurnar 13,6 milljörðum, á meðan þær námu 15,9 milljörðum í fyrra.

Hreinar þóknanatekjur hafa einnig aukist og það um 4,3%. Í fyrra námu þær 6,4 milljörðum króna, en í ár voru þær að upphæð 6,7 milljarðar.

Myglusveppurinn sem skaut rótum í höfuðstöðvum bankans hefur kostað sitt og nam einskiptikostnaður vegna skemmdanna 1,2 milljörðum. Kostnaðarhlutfall bankans var 56% og er þá óbreytt frá sama tímabili í fyrra.

Útlán til viðskiptavina hafa aukist um 5%, og hafa innlán frá viðskiptavinum lækkað um 4,6% milli ára. Alls námu útlánin 698,7 milljörðum króna og innlánin 566 milljörðum.

Heildareignir bankans nema nú 1.030 milljörðum og er eiginfjárhlutfall bankans 28,9%.