Nemendur og sérfræðingar Háskólans í Reykjavík (HR) munu í samstarfi við starfsfólk Íslandsbanka vinna að rannsóknum og þróun á nýjum hugbúnaði, þjónustu og fjölbreyttum lausnum fyrir bankakerfi framtíðarinnar, samkvæmt nýjum samstarfssamningi.

Umhverfi bankastarfsemi er í mikilli þróun með nýrri tækni og breyttu laga- og reglugerðarumhverfi. Markmiðið með samningnum er að nýta tækifærin í þessum breytingum til að Ísland verði í fararbroddi fyrir opið bankakerfi og opna um leið möguleika fyrir fjármálaþjónustu erlendis.

Samningurinn er til þriggja ára og árlegt framlag Íslandsbanka til háskólans nemur tólf milljónum króna. Það mun meðal annars nýtast til að fjármagna fjölbreytt meistaraverkefni nemenda á sviði opinna bankakerfa, fjártækni og skyldra greina. Nemendum HR gefst þannig kostur á að glíma við raunveruleg verkefni hjá fjármálafyrirtæki í fremstu röð, með stuðningi kennara við HR og starfsfólks Íslandsbanka.

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, segir: „Gervigreind, stórtæk gagnavinnsla, Blockchain og önnur upplýsingatækni, munu á næstu árum hafa gríðarleg áhrif á bankastarfsemi, líkt og fjölmarga aðra geira. Við erum mjög ánægð með þennan samning við Íslandsbanka sem gerir okkur enn betur í stakk búin til að taka virkan þátt í í þessum breytingum með því að þróa tækni og færni nemenda á sviði fjártækni.“

„Íslandsbanki hefur ákveðið að vera fyrsti íslenski bankinn til þess að opna bankann fyrir samstarfi við fjártæknifyrirtæki,. Samningurinn við Háskólann í Reykjavík opnar á tækifæri til þróunar á nýjum fjártæknilausnum sem munu nýtast viðskiptavinum vel.“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.