Alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney hefur valið Íslandsbanka besta bankann á Íslandi árið 2018. Þetta er í fimmta sinn sem bankinn hlýtur viðurkenninguna.

Við útnefninguna var m.a. horft til fjárfestinga bankans í grunnstoðum sínum svo sem innleiðingu á nýju skipulagi, flutningi í nýjar höfuðstöðvar og vinnu við uppfærslu á grunnkerfum sem er stærsta upplýsingatækniverkefni sem bankinn hefur ráðist í. Jafnframt hafi átt sér stað miklar breytingar í stafrænni þróun en nýlega var tilkynnt að bankinn sé sá fyrsti hér á landi til að opna fyrir samstarf við fjártæknifyrirtæki. Efnahagur bankans sé traustur og rekstur stöðugur, bankinn hafi á árinu verið með tímamótaútgáfur á erlendum skuldabréfum auk þess að vera leiðandi í útgáfu á sértryggðum bréfum á innlendum markaði. Viðskiptavinir hafa á sama tíma verið þeir ánægðustu þegar kemur að bankaþjónustu samkvæmt Ánægjuvoginni og starfsánægja starfsmanna sé há.

Euromoney útnefnir árlega bestu bankana í tæplega 100 löndum og veitir þeim viðurkenninguna Awards for Excellence.

„Við erum afar stolt af því að fá viðurkenningu Euromoney í fimmta sinn. Rekstur bankans gengur vel og við höfum fjárfest mikið í að styrkja grunnstoðir okkar en engu að síður haldið góðri markaðshlutdeild í krefjandi samkeppnisumhverfi sem er til marks um frábæra vinnu starfsfólksins okkar. Við höfum stigið stór og mikilvæg skref í átt að stafrænni bankaþjónustu og sjáum fjölmörg tækifæri framundan. Fyrst og fremst erum við þakklát fyrir gott samband við viðskiptavini okkar og við erum alltaf að leita leiða til að bæta þjónustuna,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.