Starfsfólki í bæði höfuðstöðvum bankans og í útibúum hans hefur verið sagt upp í hagræðingaraðgerðum Íslandsbanka. Í morgun var starfsfólki Íslandsbanka tilkynnt um að hagræðingaraðgerðir hafi leitt til uppsagna 16 starfsmanna að því er Vísir greinir frá.

Uppsagnirnar ná til bæði starfsfólks í höfuðstöðvum bankans í Norðurturni í Kópavogi sem og í útibúum, en dregið verður úr þjónustu í tveimur útibúum bankans, á Granda og Höfða, þó þeim verði ekki lokað.

Verður ekki lengur hefðbunin ráðgjafaþjónusta þar í boði, heldur einungis einfaldari afgreiðsla að því er haft er eftir Eddu Hermannsdóttur samskiptastjóra bankans. Nær það meðal annars til húsnæðislánaþjónustu sem nú sé komin frá útibúunum í höfuðstöðvarnar.

„Við erum því aðeins að breyta þjónustustiginu í þessum tveimur útibúum, þau eru enn opin og þar má áfram nálgast gjaldkera,“ er haft eftir Eddu.