*

föstudagur, 19. janúar 2018
Innlent 11. apríl 2017 11:51

Íslandsbanki spáir 1,8% verðbólgu

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,4 í apríl frá fyrri mánuði.

Ritstjórn
Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir 3% verðbólgu að jafnaði á næsta ári og 3,4% verðbólgu að meðaltali árið 2019.
Haraldur Guðjónsson

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,4 í apríl frá fyrri mánuði. Ef tekið er mið af þeirri spá eykst verðbólga úr 1,6% upp í 1,8%. Hægt er að lesa spá Greiningar Íslandsbanka hér.

„Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa versnað nokkuð frá síðustu spá okkar. Er það annars vegar vegna þess að við gerum ráð fyrir lægra gengi krónu nú en í fyrri spá, og hins vegar vegna hraðari hækkunar íbúðaverðs framan af spátímanum en áður. Við gerum þó enn ráð fyrir að verðbólga verði undir 2,5% markmiði Seðlabankans allt árið 2017, og mælist 2,2% í árslok. Í kjölfarið mun verðbólga hins vegar aukast að nýju, fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á 1. ársfjórðungi 2018 og verða að jafnaði 3,4% á seinni hluta spátímans,“ segirt í verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka.

Spá verðbólgu undir markmiði út árið 2017

Að mati Greiningar Íslandsbanka er útlit fyrir áframhaldandi hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu hefur ekki eftir á nýjan leik. Þau telja að verðbólga verði á svipuðu róli og hún hefur verið fram undir árslok og haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og mælist 2,2% í desember næstkomandi.

Hins vegar bætir í verðbólgutakinn í spá þeirra eftir því sem líður á næsta vetur. Þau áætla að verðbólga fari yfir 2,5% verðbólgumarkmiðið á fyrsta ársfjórðungi 2018 og verði yfir markmiðinu það ári. Þau gera ráð fyrir 3% verðbólgu að jafnaði á næsta ári og 3,4% verðbólgu að meðaltali árið 2019.

Áhersla á gengisþróun

Gengisþróun krónu er einn helsti áhrifaþátturinn á spá Greiningar Íslandsbanka. Bankinn gerir ráð fyrir styrkingu fram á lokafjórðung ársins 2017. „Hins vegar höfum við dregið nokkuð úr væntingum okkar til styrkingarinnar og gerum nú ráð fyrir ríflega 4% styrkingu á tímabilinu. Þar kemur til breytt umhverfi krónunnar í kjölfar losunar hafta og ekki síður sá ásetningur stjórnvalda að halda aftur af frekari styrkingu krónu. Líkt og áður gerum við í kjölfarið ráð fyrir hægfara gengislækkun krónu á seinni hluta spátímans, þegar dregur úr viðskiptaafgangi og hátt raungengi fer að segja til sín af auknum þunga,“ segir í greiningunni.

Stikkorð: Íslandsbanki Verðbólga Greining spá