Íslandsbanki spáir óbreyttum vöxtum frá Seðlabankanum í kjölfar vaxtaákvörðunarfundar peningastefnunefndar miðvikudaginn 15. mars næstkomandi. Greiningardeild Arion banka spáir hins vegar 0,25 punkta lækkun stýrivaxta eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær.

Í mati Greiningar Íslandsbanka telja þeir þó að stýrivextirnir muni lækka um 0,5 prósentur áður en árið verður hálfnað, og þeir verði því 4,5% á seinni helmingi ársins.

Segir í greiningunni að í ákvörðun nefndarinnar muni vegast á áhrif af talsverðri styrkingu krónu, betri skammtíma verðbólguhorfum og minni óvissu á vinnumarkaði annars vegar og hins vegar hraður vöxtur innlendrar eftirspurnar og mikil hækkun íbúðaverðs.

Lækkun ekki einu sinni rædd

Bendir Íslandsbanki á að lækkun vaxta hafi ekki einu sinni verið ræddur af peningastefnunefnd ef eigi að marka fundargerðir hennar fyrir síðasta vaxtaákvörðunarfund.

Því telji greiningin að þó týna megi til ýmis rök fyrir stýrivaxtalækkun nú þá gefi orð síðustu ákvörðunar það til kynna að nefndin hyggist viðhalda varfærnum tón og aðhaldsstigi peningastefnunnar áfram nú mánuði seinna.

Greiningin segir áhrif gengisþróunar krónunnar hafa birst með nokkuð misjöfnum og misgegnsæjum hætti í ákvörðunum peningastefnunefndar, en frá síðustu vaxtaákvörðun hefur krónan styrkst um 5,8% miðað við viðskiptavegna gengisvísitölu.

Gengissveiflur í febrúar og mars

Er krónan því nú ríflega 4% sterkari en Seðlabankinn hafði gert ráð fyrir í síðustu þjóðhagsspá sinni frá því í febrúar, en styrkingin var afar hröð í febrúar, þó gengið hafi eilítið gefið eftir að nýju í marsbyrjun.

Telur greiningin að peningastefnunefndin vilji sjá gengisstyrkinguna festast betur í sessi að nýju áður en frekari ákvarðanir séu teknar byggt á henni vegna aukins gengisflökts.

Jafnframt telur greiningin að nefndin stígi varlega til jarðar varðandi verðbólguhorfur enda muni hún ekki hafa nýja opinbera verðbólguspá frá bankanum til stuðnings við ákvörðun sína, sem aftur ýtir undir spá þeirra um áframhaldandi óbreytta vexti.

Óbreytt verðbólga

Verðbólga hefur þó haldist óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun, eða í 1,9% í febrúar líkt og síðustu tvo mánuði þar á undan.

Jafnframt sé sú staðreynd að kjarasamningar ASÍ og SA muni halda fram á næsta ár líklega að fara að leggjast vel í nefndina sem hafi haft töluverðar áhyggjur af óvissu á vinnumarkaði.

Hagvöxtur og íbúðaverð vegur á móti

Það sem vegi hins vegar á móti þessu sé helst þó tvennt að mati greiningarinnar, það er hraður hagvöxtur, eða 7,2% á síðasta ári, þó samsetningin sé með hagstæðasta móti vegna aukins vægis þjónustuútflutnings, sem komi til af auknum ferðamannastraumi.

Hitt atriðið sé svo síaukinn hækkun íbúðaverðs, en nú er svo komið að raunhækkun íbúðaverðs mælist nær tvöfalt hraðari en aukning kaupmáttar launa.

Lækkun bæði 17. maí og 14. júní

Af þessum ástæðum telur greiningin að nefndin ákveði að bíða og sjá áður en stýrivextir verði lækkaðir frekar, en mögulega muni hún opna á frekari lækkun síðar á árinu.

En hins vegar ef krónan haldi áfram að styrkjast og haldist sterk auk þess að verðbólgan minnki, telur greiningin að stýrivextirnir verði lækkaðir um 0,25 prósentur, hvort tveggja á vaxtaákvörðunardeginum 17. maí og aftur 14. júní næstkomandi.