Greining Íslandsbanka spáir óbreyttum stýrivöxtum við næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans en hún verður kynnt á miðvikudaginn. Ekki er talið útilokað að vextir verði lækkaðir en þó líklegra að þeir verði áfram óbreyttir.

Þá segir í greiningu bankans að síðasta vaxtaákvörðun hafi verið í samræmi við birtar spár og framsýna leiðsögn peningstefnunefndarinnar. Að langtímavaxtamunur við útlönd sé nánast óbreyttur frá síðustu ákvörðun og enn sé stöðugleikatímabil krónunnar að lengjast.

Dregið hefur úr hagvexti en það er í samræmi við uppfærða þjóðhagsspá Seðlabankans og talið ólíklegt til að koma peningastefnunefnd á óvart og hafa mikil áhrif á ákvarðanatöku hennar.

Fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar og sér í lagi fjármögnun útgjaldaaukningar er einnig gert að umtalsefni í greiningunni.

„Fjárlagafrumvarp hinnar nýju ríkisstjórnar verður ekki lagt fram fyrir vaxtaákvörðunina þann 13. desember, en af yfirlýsingum hinna nýju ráðamanna má ráða að útgjaldaaukning verði fjármögnuð með samsvarandi tekjuauka vegna stækkunar skattstofna. Tvennum sögum fer þó af því hvort þetta sé líklegt til að ganga eftir, og hafa m.a. Samtök atvinnulífsins viðrað áhyggjur af því að aðhald ríkisfjármála sé líklegt til að minnka á komandi misserum. Ef peningastefnunefnd deilir þessari skoðun mun það minnka vilja hennar til að draga frekar úr peningalegu aðhaldi. Í öllu falli hlýtur að teljast skynsamlegt að sjá fjárlagafrumvarp næsta árs og langtímaáætlun um ríkisfjármál svart á hvítu áður en verulega er slakað á aðhaldi peningamála,“ segir í greiningunni.