Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur á næsta vaxtaákvörðunardegi sem verður 16. nóvember. Þetta kemur fram í frétt á vef Íslandsbanka.

„Verður rökstuðningur nefndarinnar fyrir lækkun vaxta væntanlega sá að verðbólga er undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og útlit sé fyrir að verðbólgan verði hófleg næsta kastið samkvæmt nýrri verðbólguspá bankans, sem birt verður samhliða stýrivaxtaákvörðuninni. Vegna mikillar hækkunar á gengi krónunnar frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi og síðustu verðbólguspá bankans hafa verðbólguhorfur batnað umtalsvert,“ segir í fréttinni.

Einnig kemur fram í spá greiningardeildarinnar að nefndin mun að þeirra mati taka fram í yfirlýsingu sinni að verðbólguvæntingar séu nálægt verðbólgumarkmiðinu og að þær hafi lækkað samhliða styrkingu krónunnar.

„Hins vegar mun nefndin einnig vera með nýja hagvaxtarspá bankans þar sem líklegast verður reiknað með meiri hagvexti og þenslu í hagkerfinu en bankinn spáði áður. Þá er umtalsverð óvissa um stöðu kjarasamninga á næstu mánuðum og myndun nýrrar ríkisstjórnar í kjölfar nýafstaðinna Alþingiskosninga,“ segir einnig í greiningunni.

Arion banki spáði hins vegar að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands komi til með að halda stýrivöxtum óbreyttum . Það verður því áhugavert að fylgjast með hvað verður í kjölfarið.