Íslandsbanki hf. hefur í dag lokið útboði á þremur útistandandi flokkum sértryggðra skuldabréfa sem eru skráðir í Kauphöllina. Í fyrsta lagi var verðtryggð skuldabréfaútgáfa til sjö ára (ISLA CBI 19) stækkuð um 590 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 2,72% og í öðru lagi var verðtryggða útgáfan (ISBLA CBI 24) sem er til 12 ára stækkuð um rúma 1,4 milljarða á ávöxtunarkröfunni 3,13%. Þriðji skuldabréfaflokkurinn, óverðtryggð útgáfa (ISLA CB 15) til þriggja ára, var hins vegar ekki stækkaður.

Fram kemur í tilkynningu frá Íslandsbanka að bankinn hafi gefið út fjóra flokka sértryggðra skuldabréfa upp á 13,4 milljarða króna. Fyrsta útgáfan fór fram fyrir ári. Þar af er flokkurinn ISLA CBI 19 kominn í rúma 3,4 milljarða króna og ISLA CBI 24 kominn í rúma 4,7 milljarða.

Þá segir í tilkynningunni að bréfin hafi verið seld til breiðs hóps fagfjárfesta. Heildareftirspurnin í útboðinu nam 3.240 milljónum króna en 62% tilboða var tekið fyrir tvo milljarða.

Stefnt er á að taka bréfin til viðskipta í Kauphöllinni 20. desember næstkomandi. Viðskiptavakt fyrir alla flokka sértryggðra skuldabréfa Íslandsbanka er á vegum MP banka.