Leigufélagið Vellir 15 ehf. sem á um 180 íbúðir, langflestar á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið sett á sölu. Eigendur félagsins, sem eru Íslandshótel stærsta hótelkeðja landsins, og ÓDT ráðgjafa, sem er í eigu stærstu hluthafa keðjunnar, hyggjast selja allt hlutaféð í leigufélaginu að því er Fréttablaðið greinir frá.

Félagið, sem á einkum eignir í Vallarhverfinu í Hafnarfirði, tapaði 14,4 milljónum árið 2015, og nam tapið rúmlega 10 milljónum meira árið 2016. Eigið fé þess nam 718,5 milljónum í lok ársins 2015 og var það með 31% eiginfjárhlutfall. Félagið átti þá fasteignir með 2,3 milljarða króna bókfærðu virði.

Verð fasteigna í Vallarhverfinu, sem er um 4,300 manna hverfi þar sem stærsti hluti íbúðanna er fjölskyldufólk á aldrinum 21 til 40 ára, hefur hækkað mikið á síðustu árum. Nemur hækkunin á fasteignaverði í hverfinu um 17% árið 2015, en ef horft er til áranna 2014 til 2016 hækkaði fasteignaverðið um hátt í 30%.