Félag atvinnurekenda (FA) gagnrýnir nýútgefna ársskýrslu Íslandspósts og segir upplýsingagjöf um afkomu einstakra rekstrarþátta áfram takmarkaða og ógegnsæja. Erfitt sé að sannreyna, út frá þeim upplýsingum sem þar fram komi, að Íslandspóstur fari að ákvæðum póstlaga og samkeppnislaga um aðgreiningu einkaréttar og samkeppnisrekstrar. FA, undir stjórn Ólafs Stephensen, og aðildarfélög þess á borð við Póstmarkaðinn hafa löngum gagnrýnt það sem þau kalla beina samkeppni ríkisfyrirtækis við einkafyrirtæki og framsetningu árskýrslna Íslandspósts. Íslandspóstur hefur á móti sakað félagið um að fara offari í ásökunum sínum.

Ekki lögboðið að birta afkomu starfsþátta

Í svari Íslandspóst við ásökunum FA kemur fram að það sé hlutverk eftirlitsaðila að sannreyna að Íslandspóstur fari að ákvæðum póstlaga og samkeppnislaga um aðgreiningu einkaréttar og samkeppnisrekstrar. Íslandspóstur afhendi því eftirlitsaðilum þau gögn sem viðeigandi eru og nauðsynleg til að þeir geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Ársreikningur sé hluti af þeim gögnum.

Félagið bendir á að ekki sé lögboðið að Íslandspóstur birti yfirlit um afkomu starfsþátta. „Ársreikningur samstæðu Íslandspósts er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla og er áritaður án athugasemda af endurskoðendum félagsins.“ Íslandspóstur segir hins vegar að félagið hafi talið rétt að birta yfirlit um afkomu starfsþátta í ársskýrslu sinni í þeim tilgangi að greina afkomu meginstarfsþátta félagsins en ekki sé um lögbundið yfirlit að ræða, heldur sé það ákvörðun Íslandspósts að vinna það og birta með þessum hætti.

Fráleitt að rekstrinum sé haldið gangandi af einkarétti

Pósturinn tekur undir það með FA að ársreikningum sé almennt ætlað að gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu, afkomu og breytingu á handbæru fé í samræmi við viðurkenndar reikningsskilaaðferðir á tilteknu tímabili og segir það sama eiga við ársreikning Íslandspósts. Hins vegar sé ljóst af ofangreindum athugasemdum að dæma að Félag atvinnurekenda sé að reyna að lesa eitthvað annað út úr reikningnum og virðast með einhverjum hætti vera að reyna að setja sig í spor eftirlitsaðila á póstmarkaði. Varðandi það atriði að rekstrinum sé haldið gangandi af einkaréttinum tekur Íslandspóstur fram að nauðsynlegt sé að horfa á tilgang einkaréttar í póstþjónustu en hann sé til þess að standa undir þeim þáttum þjónustunnar sem ekki eru arðbærir en veittir eru eingöngu á grundvelli alþjónustuskyldunnar.

Undanfarin ár hefur einkaréttur ekki staðið að fullu undir þeim tilgangi og því fráleitt að halda því fram að rekstrinum hafi verið haldið gangandi af einkarétti. Segist Íslandspóstur ítrekað hafa svarað Viðskiptablaðinu áður um sambærileg málefni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.