*

föstudagur, 24. maí 2019
Innlent 17. febrúar 2017 12:33

Íslandspóstur hlítir ítarlegum skilyrðum

Íslandspóstur gerir breytingar á skipulagi samstæðunnar og hlítir ítarlegum skilyrðum í starfsemi sinni.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Íslandspóstur gerir breytingar á skipulagi samstæðunnar og hlítir ítarlegum skilyrðum í starfsemi sinni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

„Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2017, sem birt er í dag, eru leiddar til lykta athuganir sem varða mögulegar samkeppnishindranir á póstmarkaði. Athuganir þessar eiga rætur að rekja til allmargra kvartana og ábendinga sem borist hafa frá keppinautum Íslandspósts á liðnum árum. Til grundvallar ákvörðuninni liggur sátt sem Íslandspóstur og Samkeppniseftirlitið hafa gert,“ segir í tilkynningunni.

Íslandspóstur skuldbindur sig til að hlíta ítarlegum skilyrðum og gera breytingar á starfsemi sinni, sem vinna gegn samkeppnishömlum sem Samkeppniseftirlitið telur að rekja megi til einkaréttar á dreifingu minni áritaðra bréfa og sterkrar stöðu Íslandspósts á póstmarkaði og tengdum mörkuðum. „Miða þessar ráðstafanir að því að bæta samkeppnisumhverfið á þessu sviði til frambúðar. Um leið er unnið gegn því vantrausti sem grafið hefur um sig gagnvart Íslandspósti á póstmarkaði,“ er einnig tekið fram.

Ákvæði er varða skipulag samstæðunnar eru einkum eftirfarandi, segir í tilkynningunni:

 • Mælt er fyrir um að tiltekin samkeppnisstarfsemi Íslandspósts verði ávallt rekin í aðskildum dótturfélögum. Í þessu skyni þarf Íslandspóstur að færa hraðpóstþjónustu sína út úr móðurfélaginu inn í aðgreint dótturfélag.
 • Mælt er fyrir um skýra aðgreiningu innan Íslandspósts á milli söluþáttar starfseminnar og kostnaðarúthlutunar. Aðgreiningin vinnur almennt gegn hagsmunaárekstrum og stuðlar að gagnsæi í verðlagningu á vörum. Er með þessu m.a. stuðlað að því að úthlutun kostnaðar félagsins vegna einkaréttarstarfsemi annars vegar og samkeppnisstarfsemi hins vegar eigi sér stað með hlutlægum hætti og raski ekki samkeppni. Aðgreiningin er m.a. tryggð með aðskilnaði í daglegri stjórnun og aðgangsstýringu í húsnæði og upplýsingakerfum.
 • Skipuð skal sérstök eftirlitsnefnd sem fylgir sáttinni eftir, tekur við kvörtunum og tekur ákvarðanir í samræmi við fyrirmæli sáttarinnar. Nefndin verður hluti af skipulagi fyrirtækisins og skipuð af Íslandspósti, en tilnefningu nefndarmanna skal bera undir Samkeppniseftirlitið til samþykktar eða synjunar. Tveir af þremur nefndarmönnum skulu vera óháðir Íslandspósti.
 • Samkeppnisstarfsemi sem er óskyld meginstarfsemi fyrirtækisins verði rekin í dótturfélagi, samkvæmt nánari fyrirmælum eftirlitsnefndar.

Skilyrði sáttarinnar er varða starfshætti Íslandspósts eru m.a. eftirfarandi:

 • Til að auka aðhald og gegnsæi skal gera sérstaka grein fyrir samkeppnisstarfsemi Íslandspósts á heimasíðu félagsins.
 • Mælt er fyrir um sérstök rekstraruppgjör fyrir hverja slíka samkeppnisstarfsemi til þess að auðvelda eftirlit með m.a. mögulegri víxlniðurgreiðslu frá einkaleyfisrekstri til samkeppnisstarfsemi. Kveðið er ítarlega á um kostnaðarviðmið og forsendur að baki þessum uppgjörum. Á sama hátt skal útbúið sérstakt afkomuyfirlit vegna einkaréttarstarfsemi.
  Kveðið er á um hvernig bregðast skuli við tapi á samkeppnisstarfsemi innan móðurfélags, þ.á m. viðbrögð vegna yfirvofandi taprekstrar.
 • Kveðið er á um armslengd í fjármögnun dótturfélaga. Er Íslandspósti þannig m.a. gert óheimilt að veita dótturfélögum ívilnandi fyrirgreiðslu í formi lána undir markaðsvöxtum og að veita ábyrgðir og veð fyrir lánum dótturfélaga.
 • Kveðið er á um að viðskipti Íslandspósts og dótturfélaganna skuli fara fram á viðskiptalegum forsendum eins og um viðskipti milli ótengdra aðila væri að ræða. Á það m.a. við um verðlagningu á vörum og þjónustu og meðferð viðskiptaskulda.
 • Gerðar eru kröfur um rekstrar- og stjórnunarlegt sjálfstæði dótturfélaga, þ.á.m. um tiltekið óhæði í stjórnum og aðgreiningu í húsnæði og upplýsingakerfum.
 • Kveðið er á um að keppinautar Íslandspósts á sviði póstþjónustu skuli njóta sambærilegra skilmála og kjara í viðskiptum við Íslandspóst og aðrir viðskiptavinir félagsins í sömu stöðu.
 • Bann er lagt við ómálefnalegri höfnun á viðskiptum við keppinauta á sviði alþjónustu Íslandspósts.
 • Mælt er fyrir um að í dreifbýli og minni þéttbýlisstöðum sé Íslandspósti skylt að inna af hendi fjölpóstdreifingu fyrir aðra póstrekendur, á sömu kjörum og gegn sömu skilmálum og Íslandspóstur sjálfur nýtur. Skal viðkomandi verðskrá og viðskiptaskilmálar vera skýrir og aðgengilegir fyrir keppinauta.
 • Mælt er fyrir um gerð samkeppnisréttaráætlunar fyrir Íslandspóst.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

 • - Viðskiptablaðið sent heim
 • - Vefaðgangur að vb.is
 • - Frjáls verslun sent heim
 • - Fiskifréttir sent heim