Tölvuöryggisfyrirtækið Syndis hefur gert rannsóknir á tölvuöryggishegðun Íslendinga og segja þeir niðurstöður könnunar frá 2014 sýna að Íslendingar séu alla jafna auðblekktir og síðari kannanir gefi ekki mikla von um að það horfi til bóta.

Í gær fengu margir einstaklingar hérlendis netveiðipóst þar sem sendandi bað um bankaupplýsingar vegna fyrirhugaðrar endurgreiðslu ofgreidds reiknings hjá Símanum hf, að því er segir í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu.

Varaði lögreglan við póstinum en notkun svokallaðs ransomware af þessu tagi sem nýttur er til að ná stjórn á gögnum einstaklinga og fyrirtækja og krefjast lausnargjalds til þess að afkóða hann á ný hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum.

Fóru úr 1 í 193 á fjórum árum

Uppgötvaðist einn slíkur árið 2012, Rannoch, en árið 2016 voru þeir 193. Í rannsókn á vegum IBM á 600 bandarískum fyrirtækjum kom í ljós að 70% þeirra sem lent höfðu í slíku greiddu lausnargjald til þess að fá gögnin sín afdulkóðuð á ný.

Borgaði helmingur þeirra yfir 20 þúsund Bandaríkjadali, eða sem nemur rúmum tveimur milljónum króna fyrir að ná stjórn á gögnunum sínum á ný.

Gerðu tilraun með nethegðun Íslendinga

Í könnun Syndis voru sendir netveiðipóstar á 1.300 einstaklinga hér á landi. Kom í ljós að einungis 2% opnuðu hlekki í spam, eða ruslpósti, en enginn þeirra veitti upplýsingar, en gerð var könnun á því til samanburðar.

Hins vegar smelltu 25% á hlekki á samfélagsmiðlapóstum, eða á vinabeiðnir. Af þeim skráðu 35% sig inn í kjölfarið með lykilorði. Í þriðja lið var nýtt sérsniðið njósnaforrit, „targeted malware“, og fólk beðið um að gera ýmislegt, meðal annars að setja upp trójuhest eða vírus inn á kerfið hjá sér.

Smelltu 10% þeirra á þann hlekk og af þeim fóru 23% alla leið með ferlið.