Í nýlegum sjónvarpsþætti HBO sjónvarpsstöðvarinnar, Silicon Valley, sem myndi útleggjast sem Kísildalurinn á íslensku, upplýsir stjarna þáttanna, Gilfoyle, sem leikinn er af Martin Starr, að hann stundi svokallaðan Bitcoin námugröft.

Það gerir hann þó einungis ef gengi Bitcoin fer yfir ákveðið virði svo að hann lætur viðvörun koma upp hjá sér í formi dauðarokkslagsins You Suffer með hljómsveitinni Napalm Death, í hvert sinn sem Bitcoin hreyfist í verðgildi, svo hann geti stýrt framleiðslunni.

Þar sem Bitcoin er einstaklega óstöðugt og hve hátt lagið er stillt, þá verður þetta fljótlega til mikilla leiðinda með tilheyrandi ánægju áhorfenda að þáttunum. Nú hefur íslenska vefsíðufyrirtækið Viska búið til vefútgáfu af viðvörun Gilfoyle. Sindri Guðmundsson frá Visku skýrði fyrir fjölmiðlinum The Verge að starfsmenn fyrirtækisins horfi saman á þáttinn vikulega.

Segir hann að vefsíðan hafi einungis verið gerð til gamans, en notuð er Javascript forritunarmál sem sækir verð Bitcoin af síðunni Coincap.io, og vefsíðan sé byggð á Wordpress. Allt í allt hafi þetta einungis tekið þrjár klukkustundir, svo nú geta allir notendur hermt eftir stjörnu þáttanna.

„Við fylgjumst í raun og veru töluvert með verðsveiflum Bitcon og að spila fallega tónlist í hvert sinn sem verðið fer yfir ákveðin mörk gerir daginn betri,“ segir Sindri í svari til fjölmiðilsins.