Nöfn nokkurra tuga Íslendinga er að finna í nýjum gagnaleka um viðskipti á aflandssvæðum sem Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna birtu í samstarfi um 100 fjölmiðla í kvöld. Enga íslenska stjórnmálamenn er að finna í lekanum samkvæmt frétt á vef Reykjavik Media .

Sömu samtök stóðu að birtingu Panamaskjalanna sem leiddu til að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lét af starfi forsætisráðherra í apríl 2016.

Fjárhagsupplýsingar um Elísabetu II Englandsdrottningu og aðila tengdum Donald Trump Bandaríkjaforseta má finna í gögnunum ásamt nöfn yfir 100 stjórnmálamanna.

Þar á meðal eru Wilbur Ross, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna og Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Skipafyrirtæki sem hinn vellauðugi Ross á hlut í átti í umtalsverðum viðskiptum við tengdason Vladimír Pútín Rússlandsforseta og rússenska aðila sem Bandaríkin og ESB hafa sett á viðskiptaþvinganir. Alls er að finna 12 starfsmenn, ráðherra og einstaklinga sem styrkt hafa kosningabaráttu Trump verulega í gögnunum.

Elísabet II Bretadrottning á um 1,4 milljarða króna á aflandseyjum samkvæmt gögnunum. Í frétt BBC er bent á að ekkert bendi til þess að drottningin hafi ekki greitt skatta af fénu og ekki sé ólöglegt að eiga fé á aflandseyjum. Hins vegar megi spyrja hvort það sé við hæfi að þjóðhöfðingi geymi fé með þessum hætti.