Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 hleyptu margir Íslendingar heimdraganum í leit að betri kjörum erlendis. Stórir hópar lögðu leið sína til Noregs, en þar hefur stærsta samfélag Íslendinga utan Íslands safnast saman undanfarin ár. Í fyrra tók Íslendingum þó að fækka í Noregi og fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu frá Noregi heldur en til Noregs í fyrsta skipti í áratug.

Samkvæmt upplýsingum norsku hagstofunnar voru íslenskir ríkisborgarar í Noregi 9.246 talsins í upphafi þessa árs. Þá eru ekki taldir með þeir sem koma til Noregs og starfa þar um skemmri tíma. Það jafngildir tæplega 3% af íbúafjölda Íslands og 0,2% af íbúafjölda Noregs. Íslendingar eru 15. stærsti innflytjendahópurinn í Noregi og eru álíka margir og Bandaríkjamenn í Noregi, en þó fleiri en Finnar. Árið 2015 voru Íslendingar í Noregi 9.573 og fækkaði því um 3,4% milli ára, en frá 2008 til 2016 hafði þeim fjölgað um tæplega 150%.

Þá fluttu fleiri Íslendingar frá Noregi en til Noregs í fyrra í fyrsta skipti síðan 2006, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Voru aðfluttir Íslendingar frá Noregi tæplega 28% af heildarfjölda aðfluttra íslenskra ríkisborgara. Þróunin hélt áfram á fyrstu þremur mánuðum þessa árs, þegar 190 Íslendingar snéru aftur til Íslands frá Noregi á sama tíma og 90 fóru á móti umferð. Þróunin í fyrra var í andstöðu við almenna búferlaflutninga Íslendinga á árinu, en brottfluttir Íslendingar voru fleiri en aðfluttir á síðasta ári líkt og hefur verið frá 2005, sérstaklega meðal menntaðs vinnuafls og ungs fólks.

Fyrirheitna landið

Á árunum 2009 til 2012 fluttu tæplega 17.400 Íslendingar af landi brott í kjölfar bankahrunsins og gengisfalls íslensku krónunnar. Þar af fór um þriðjungur til Noregs, eða tæplega 1.500 manns á ári hverju. Iðnaðarmenn og ófaglært vinnuafl voru lunginn úr þessum hópi, mest karlmenn á aldrinum 40 til 66 ára. Ástæðurnar fyrir brottflutningum eru margvíslegar, en gera má ráð fyrir því að í flestum tilfellum hafi kjaratengdir hagsmunir ráðið för.

Eftir bankahrun og gengisfall íslensku krónunnar blasti Noregur við Íslendingum sem land tækifæranna. Niðursveiflan í Noregi árin 2008 til 2009 var öllu mildari en efnahagssamdrátturinn hér á landi. Í raun var hún mildari en á öðrum Norðurlöndum, meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Atvinnuleysi í Noregi var rúmlega 3% árið 2009 en yfir 7% á Íslandi. Meðaltekjur eftir skatta og bætur voru yfir helmingi hærri í Noregi en á Íslandi sama ár (miðað við tölur OECD í kaupmáttarleiðréttum Bandaríkjadollurum), kaupmáttur meiri og vinnuvikan styttri. Grasið virtist því grænna hjá frændum okkar.

Auðvelt reyndist fyrir marga Íslendinga að fá vinnu í Noregi eftir hrun. Annars vegar greiddi að­ ild Íslands og Noregs að evrópska efnahagssvæðinu götu Íslendinga á vinnumarkaði í Noregi, en einnig er sameiginlegur vinnumarkaður á Norðurlöndunum, burtséð frá EES. Íslendingar hafa auk þess jafnan getið sér gott orð á vinnustað í Noregi. Menningarleg og söguleg tengsl ríkjanna eru sterk. Íslendingar eiga auðvelt með að læra norsku og hefur það gefið þeim forskot á vinnumarkaði umfram aðra innflytjendur. Þá er norskt samfé­ lag fjölskylduvænt, velferðarkerfið öflugt og Norðmenn ein ánægðasta og ríkasta þjóð heims.

Óveðursský

Tímarnir hafa breyst, enda efnahagslegar sviptingar átt sér stað bæði í Noregi og á Íslandi undanfarin ár.

Undanfarin þrjú ár hafa óveðursský hrannast upp yfir norsku hagkerfi. Segja má að hagkerfið hafi verið í efnahagslægð. Ástæða niðursveiflunnar hefur einkum verið mikil lækkun olíuverðs frá miðju ári 2014 til febrúar 2016, úr um hundrað Bandaríkjadölum á tunnu í 26 Bandaríkjadali. Frá þeim tíma hefur olíuverð hækkað og verið um 50 Bandaríkjadalir undanfarinn mánuð. Norska hagkerfið er að miklu leyti háð útflutningi jarðefnaeldsneytis, sem nam um 60% af útflutningi ríkisins árið 2014. Lækkun olíuverðs leiddi til verstu dýfu í norskum olíuiðnaði í mannsaldur, en 50 dalir á tunnu er bæði lágt í sögulegu samhengi og undir því 70 dala viðmiði þar sem norski olíuiðnaðurinn skilar hagnaði.

Afleiðingin var sú að útflutningur Noregs dróst saman um tæplega 20% frá 2013 til 2016 og útflutningur á olíu og gasi féll um 36%. Viðskiptaafgangur Noregs skrapp einnig saman og náði 17ára lágmarki í fyrra, en viðskiptaafgangurinn hefur styrkt norska gjaldmiðilinn og gert Norðmönnum kleift að hækka launastig, stytta vinnuvikuna og byggja upp innviði. Samhliða þessu hefur gengi norsku krónunnar lækkað verulega, eða úr 23,4 íslenskum krónum í janúar 2013 í 12,3 þann 9. maí sl. Jafngildir þetta um helmings lækkun fyrir þá Íslendinga sem senda hluta launa sinna til Íslands sem og verulegri skerðingu á framlegð íslenskra verkfræði-, verktaka- og tæknistofa í Noregi, sem hófu starfsemi þar í landi einkum á síðustu árum.

Yfir 40 þúsund störf hafa tapast í norska olíuiðnaðinum frá 2014, einkum á vesturströnd Noregs. Það hefur átt sinn þátt í atvinnuleysi, sem aukist hefur úr 3,3% árið 2014 í 5% í júlí í fyrra og hafði þá ekki verið meira í 20 ár. Atvinnuleysi hefur minnkað frá þeim tíma (var 4,3% í mars) og er nú nær atvinnustigi evrusvæðisins og Bandaríkjanna. Atvinnuþátttaka hefur einnig minnkað.

Vextir í Noregi eru í sögulegu lágmarki um þessar mundir og „óeðlilega lágir,“, enda langt undir meðalvöxtum undanfarins aldarfjórðungs. Þrátt fyrir það hefur hagvöxtur í Noregi verið í rýrara lagi undanfarin ár. Raunvextir og hagvöxtur að frádreginni verðbólgu hafa verið neikvæð frá 2013. Lágvaxtastefna norska seðlabankans hefur varla náð að örva heildareftirspurn, heldur aðeins hækkað verð á innflutningi og ýtt undir verð­bólgu vegna veikingar norsku krónunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .