Sænska dagblaðið Dagens Industri gerir fjárfestingar Íslendinga að umfjöllunarefni í dag eða réttra sagt minnkandi fjárfestingar þeirra og það undir fyrirsögninni ?Íslendingarnir sigla heim.?

Í umfjöllunni eru tekin saman yfirlit yfir fjárfestingar Íslendinga í Svíþjóð og af því er ljóst að stöðutökur hafa minnkað. Mestu munar um að Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hefur dregið verulega saman í fjárfestingum sínum og selt sig út úr 12 af 14 stöðutökum sínum. Straumur Burðarás á en bréf í bankanum SEB og félaginu Pricer. Einnig er Straumur Burðarás með stöðu í Net Entertainment þar sem þeir eiga 17,7% af hlutafénu og 21,8% af atkvæðunum.

Straumur Burðarás seldi sem kunnugt er stöðu sína í veðmálafyrirtækinu Betsson sem starfar fyrst og fremst á netinu. Þeir virðast ekki hafa notað þá fjármuni til frekari fjárfestinga enda hefur safnið þeirra minnkað niður í 870 milljónir sænskra króna eða um 8,4 milljarða króna.

Svo virðist sem Landsbankinn hafi leyst Straum Burðarás af hólmi sem stærsti íslenski fjárfestirinn í Svíþjóð og er talið að verðmæti hlutabréfa þeirra þar sé nú um 1,25 milljarðar sænskra króna eða ríflega 12 milljarðar íslenskra króna að því er kemur fram í Dagens Industri. Stærsta eign þeirra er í Intrum Justita þar sem Landsbankinn er með 11,7% hlutafjár.

Landsbankinn hefur að hluta til breytt um stefnu og á nú í færri og stærri fjárfestingum. Síðan um áramót hefur hann keypt í Nordea, Investor og Ericsson.

Kaupþing, rétt eins og Straumur Burðarás, hefur dregið sig út úr stöðutökum og eiga þeir nú aðeins í 20 félögum en áttu í 38 félögum um síðustu áramót. Kaupþing hefur hins vegar kosið að vera ekki í stórum félögum og aðeins tvö af félögum þeirra falla undir það að vera í hópi 20 stærstu félaganna í kauphöllinni. Stærsta eign þeirra er samkvæmt Dagens Industri í byggingafélaginu JM. Sjálfsagt hafa margir gaman af því að vita að þeir eiga 550 B-hlutdeildarbréf í knattspyrnuliðinu AIK.

Tryggingamiðstöðin hafði fjárfest nokkuð í Svíþjóð og var stærsta eign þeirra Invik. Eftir að það var selt færði TM sig yfir í Kinnevik auk þess félagið á nokkuð af bréfum í bankageiranum, meðal annars í Nordea, SEB og Carnegie. Síðasta fjárfestingin, í Carnegie, átti sér stað í ágúst síðastliðnum.