Samkvæmt könnun MMR hefur þeim Íslendingum sem búa í leiguhúsnæði hefur fækkað um 4% síðastliðna 12 mánuði. Kváðust 14% svarenda nú búa í leiguhúsnæði, samanborið við 18% árið 2017. Þeim sem bjuggu í foreldrahúsum fjölgaði á milli ára og voru nú 13%, samanborið við 10% árið 2017. Þá kváðust nú 72% búa í eigin húsnæði, samanborið við 70% í mælingum síðasta árs.

Könnunin var framkvæmd dagana 3. til 9. október 2018 og var heildarfjöldi svarenda 921 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Upplifa meira öryggi

Niðurstöður benda til þess að eftirstandandi leigjendur upplifðu meira öryggi heldur en síðustu ár en 48% leigjenda töldu sig búa í mjög öruggu leiguhúsnæði, sem er aukning um 18 prósentustig frá mælingum síðasta árs. Þeim sem kváðust búa í frekar öruggu leiguhúsnæði fækkaði um 14 prósentustig yfir sama tímabil, úr 51% í 37%.

Af þeim sem sögðust búa í leiguhúsnæði töldu 15% það frekar eða mjög líklegt að þeir myndu missa húsnæði sitt, sem var lækkun um 4 prósentustig frá mælingum 2017.

Fleiri í foreldrahúsum

Nær helmingur svarenda í yngsta aldurshópi (18-29 ára) kvaðst búa í foreldrahúsum eða 45%, sem er hækkun um 16 prósentustig frá mælingum ársins 2016. Þá voru svarendur á aldrinum 18-29 ára einnig líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast búa í leiguhúsnæði (30%).